Dæmdur í fangelsi fyrir að sigla undir áhrifum

Deila:

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Vestfjarða verið dæmdur til 3 mánaða fangelsisvistar fyrir að sigla smábát undir áhrifum kannabisefna og án réttinda til að sigla skipinu.

Í dómnum segir segir að maðurinn hafi verið ákærður fyrir að hafa árið 2022 brotið gegn siglingalögum og lögum um áhafnir skipa með því að hafa í starfi sínu sem skipstjóri á fiskiskipi, sem er 7,48 brúttótonn, 9,25 metrar að skráðri lengd og með 190,40 kW aðalvél stjórnað skipinu á leið til hafnar, ófær um að stjórna því örugglega vegna áhrifa ávana-og fíkniefna, en í blóði hans hafi mælst tetrahýdrókannabínól, 7,4 ng/ml.

Hann var að sögn hvorki lögskráður á skipið né með gilt skírteini til skipstjórnar. Það hafi ekki aftrað honum frá því að fara samtals 20 sjóverðir á skipinu sem skipstjóri á tímabilinu frá 4. maí til 18. júlí. Hann hafði auk þess ranglega lögskráð annan mann sem skipstjóra á skipið frá 27. apríl til 31. ágúst 2022. Sá hafi aldrei farið á sjó á skipinu á umræddu tímabili.

Maðurinn mætti ekki fyrir dóm þegar málið var þingfest. Það er talið jafngilda játningu. Hann hlaut áður dóm árið 2021 og rauf þannig skilorð með háttsemi sinni. Hann var því dæmdur til þriggja mánaða óskilorðsbundinnar refsingar að þessu sinni.

Deila: