Matvælaprentari og tækifæri í matvælaframleiðslu á World Seafood Congress 2017 í Hörpu

Deila:

Vöxtur í bláa lífhagkerfinu er yfirskrift alþjóðlegu World Seafood ráðstefnunnar sem haldin verður dagana 10.-13. september.  Þar verður meðal annars fjallað um nýjungar eins og matvælaprentara sem talið er að muni hafa veruleg áhrif á matvælaframreiðslu í framtíðinni og um fjölmörg brýn og spennandi málefni sem snerta matvælaframleiðslu og matvælaöryggi.

World Seafood Congress (WSC) er einn stærsti vettvangur heims þar sem fjallað er um verðmætasköpun og matvælaöryggi í sjávarútvegi.  WSC er haldin dagana á undan Íslensku sjávarútvegssýningunni í Kópavogi sem hefst þann 13. september og verður boðið upp á akstur frá Hörpu í Smárann strax eftir að WSC lýkur. Aðgangseyrir að Íslensku sjávarútvegssýningunni er innifalinn í WSC.

Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og hana sækja starfsmenn útgerða og fiskvinnslu, fjárfestar og fólk úr stofnana- og menntaumhverfinu víða um heim.  Það er mikill heiður að fá WSC hingað til lands því eftirsótt er að halda hana og er Ísland fyrst Norðurlanda til þess.  Ráðstefnan er á vegum IAFI (International Association of Fish Inspectors) sem eru samtök fag- og eftirlitsaðila í fiskiðnaði. Matís sér um ráðstefnuna hér á landi en hún var síðast haldin í Bretlandi og þar áður í Kanada. Víetnam mun svo halda hana að tveimur árum liðnum.

Bláa lífhagkerfið

Meginþema ráðstefnunnar í ár „Vöxtur í bláa lífhagkerfinu“ er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem liggja veruleg tækifæri til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna og markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi og sjálfbærni að leiðarljósi. Á meðal faglegra þátta sem fjallað verður um á WSC má nefna nýsköpun í sjávarútvegi og möguleika til fjárfestinga. Matvælaöryggi og forsendur alþjóðlegrar verslunar með mat og baráttuna gegn svikum í matvælaframleiðslu.

Það felast mikil tækifæri í því fyrir íslenskan sjávarútveg að fá þessa ráðstefnu hingað til lands til að kynna fyrir hvað hann stendur og hitta erlenda frumkvöðla sem einnig eru að fást við nýsköpun og þróun í sjávarútvegi.  Meðal fyrirlesara verður Lynette Kucsma einn af hönnuðum fyrsta matvælaprentarans sem verður sýndur á ráðstefnunni, John Bell frá framkvæmdastjórn ESB sem mun fjalla um áhrif tæknibreytinga í evrópskum sjávarútvegi og Anthony Wan, upphafsmaður Gfresh, stærsta stafræna markaðstorgs fyrir sjávarafurðir. Þá mun Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpa ráðstefnuna.

Búist má við að allt að 500 manns alls staðar að úr heiminum sæki ráðstefnuna. Fólk úr öllum greinum sjávarútvegs og fiskveiða, frá rannsókna- og háskólasamfélaginu, alþjóðlegum stofnunum og eftirlitsaðilum víða um heim.

Enn er opið fyrir skráningar á ráðstefnuna á heimasíðu WSC, www.wsc2017.com

 

Deila: