Fræðsluáætlun Síldarvinnslunnar tilbúin

Deila:

Í nýrri starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar, sem samþykkt var á síðasta ári, er sérstök áhersla lögð á fræðslumál. Í kjölfar samþykktar hennar var framkvæmd könnun á fræðsluþörf innan fyrirtækisins og hefur nú verið unnin fræðsluáætlun sem meðal annars byggir á niðurstöðum þeirrar könnunar. Austurbrú hefur haft yfirumsjón með gerð áætlunarinnar en sérstakur stýrihópur verkefnisins var skipaður starfsmönnum Síldarvinnslunnar. Í stýrihópnum voru eftirtaldir: Hákon Ernuson starfsmannastjóri, Sólveig H. Björgúlfsdóttir, Katarzyna Jagielska, Hafþór Eiríksson, Jón B. Ólafsson og Sigurður K. Jóhannsson.

Fræðsluáætlunin er gerð til þriggja ára og eru markmiðin með fræðslunni eftirfarandi:

-að auka starfsánægju og víkka sjóndeildarhring

-að auka færni og hæfni starfsmanna

-að auka öryggi á vinnustað

-að stuðla að bættri aðlögun erlendra starfsmanna

-að auka samheldni innan fyrirtækisins

Starfsmönnum í öllum deildum fyrirtækisins verður boðið upp á námskeið og mun framboð námskeiða í hverri deild taka mið af óskum starfsmanna. Árlega er síðan gert ráð fyrir að kanna þátttöku og virkni starfsmannanna í fræðslustarfinu auk þess sem starfsánægja verður mæld.

Niðurstöður könnunarinnar um fræðsluþörfina benda til að starfsmenn Síldarvinnslunnar séu almennt tilbúnir að mæta á vinnutengd námskeið og um helmingur starfsmannanna hafi að auki áhuga á tómstundanámskeiðum. Þau námskeið sem mest þörf er fyrir, ef marka má niðurstöður könnunarinnar, eru eftirfarandi:

-námskeið í skyndihjálp

-samskiptanámskeið

-kjaranámskeið

-öryggisnámskeið

-sjálfsstyrkingarnámskeið

Hákon Ernuson starfsmannastjóri segir að sum námskeiðin sem boðið verður upp á séu skyldunámskeið en önnur verði valkvæð. Ýmis námskeið verða sérhæfð fyrir ákveðna hópa starfsmanna eins og til dæmis námskeið fyrir rafvirkja eða Baader-menn. Vill Hákon hvetja starfsmenn til að sækja námskeiðin og hagnýta sér þá fræðslu sem boðið verður upp á. Fljótlega mun fara fram kynning á námsframboði haustannar 2017 og vorannar 2018.

Ljósmynd Hákon Ernuson.

 

Deila: