Nýtt smáforrit auðveldar tilkynningar

Deila:

Neyðarlínan og Landhelgisgæslan hafa tekið í notkun nýtt smáforrit sem skip og bátar geta notað til að tilkynna til Vaktstöðvar siglinga þegar þau leggja úr höfn. Smáforritið er fyrst og fremst ætlað minni skipum en ekkert er því til fyrirstöðu að stærri skip noti það einnig.

Hægt er að nálgast smáforritið, sem heitir ,,VSS Trackwell App” , í Play store fyrir Android snjallsíma. Sama forrit ber nafnið ,,VSS Login“ og er aðgengilegt í App Store fyrir þá sem hafa Apple snjallsíma. Þegar forritinu hefur verið hlaðið niður, getur skipstjóri skráð sig inn með kennitölu og í framhaldi notað forritið til að skrá skip sitt úr höfn. Þá geta skipstjórar farþegaskipa skráð fjölda farþega og áhafnarmeðlima um borð. Hugbúnaðurinn virkar þannig að ef ferilvöktunarbúnaður viðkomandi skips er óvirkur þegar það er tilkynnt úr höfn með þessum hætti, fær skipstjóri ábendingu frá forritinu um að hafa samband við Vaktstöð siglinga. Hafa skal í huga að strandveiðibátum ber að tilkynna brottför sína handvirkt með talstöð til Vaktstöðvar siglinga í samræmi við reglugerð um strandveiðar. Landhelgisgæslan og Neyðarlínan hvetja skipstjóra til að nýta sér þessa nýjung.

 

Deila: