Ægir helgaður útgerð smábáta

Deila:

„Ægir er að þessu sinni helgaður smábátaútgerð að stórum hluta en á þessum árstíma má segja að sá hluti sjávarútvegsins vakni verulega til lífsins með grásleppuveiðum og síðan strandveiðum sem hefjast líkt og áður í byrjun maí. Vissulega eru ekki allir þeir bátar sem teljast til smábátaútgerðarinnar bundnir við bryggju á öðrum tímum ársins en tíðarfarið á Íslandi yfir hörðustu vetrarmánuðina gerir þó að verkum að þeir smæstu halda sig til hlés. Smábátaútgerðin á mikið undir veðrinu og þeir sem hana stunda benda enda líka á að tíðarfarið setji bátunum svo mikil mörk að óhætt sé að gefa handfæraveiðar á minnstu bátunum frjálsar. Ekki þurfi að óttast að sá afli ógni stöðugleika fiskistofna.“

Svo segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis, í leiðara nýjasta tölublaðs Ægis.  Í blaðinu eru meðal annars viðtöl við Axel Helgason, formann Landssambands smábátaeigenda og feðgana Hafstein Sæmundsson og Heimi Örn Hafsteinsson. Þeir róa saman á grásleppu á bátnum Trylli. Hafsteinn er 82 ára gamall og eru 70 ár síðan hann fór fyrst á sjó. Sonur hans, Heimir Örn, er eðlilega nokkru yngri og er aðalstarf hans yfirstýrimaður og skipstjóri á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. „Strandveiðin skiptir okkur miklu máli“ segir Ketill Elíasson, smábátasjómaður í Bolungarvík og ástand flotans er nú betra en áður.

Margt annað efni er að finna í blaðinu.

Deila: