Minna af síld við Færeyjar
Minna varð vart við norsk-íslenska síld í nýafstöðnum leiðangri færeyska rannsóknaskipsins Magnúsar Heinasonar en undanfarin þrjú ár. Það var í syðri og eystri hluta landhelginnar, sem minna var af síld. Meira var hins vegar að sjá af kolmunna
Rannsóknasvæðið er breytilegt og því er samanburður milli ár erfiður. Frekari niðurstöður um síldina munu liggja fyrir seinna í sumar, þegar niðurstöður rannsókna fleiri landa liggja fyrir.
Eins og undanfarin á var síldin stór að mestu leyti en einnig varð vart smærri síldar á nokkrum svæðum. Lítið sem ekkert var að sjá af ársgömlum kolmunna og er það í samræmi við rannsóknarleiðangur sunnan við eyjarnar í apríl.
Rannsóknarleiðangurinn er hluti sameiginlegra rannsókna undir merkjum Alþjóða hafrannsóknaráðsins þar sem þátttakendur eru Færeyjar, Noregur, Ísland, Danmörk og Rússland. Rannsóknir norðan Færeyja standa enn yfir.