Nýr Björgúlfur EA leggur af stað til Íslands

Deila:

Ísfisktogarinn Björgúlfur EA 312 lagði í morgun af stað frá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi til Istanbul þar sem skipið tekur olíu áður en það heldur til Íslands. Reiknað er með 12-14 sólarhringa siglingu til heimahafnar á Dalvík. Skipið er í eigu Samherja hf. og er systurskip Kaldbaks EA sem kom til Akureyrar fyrr í vor en í árslok fær fyrirtækið þriðja skipið sömu gerðar afhent. Fjórði ísfisktogarinn af þessari gerð kemur til Sauðárkróks í haust og ber nafnið Drangey SK og er í eigu FISK Seafood.

Frystitogarinn Sólberg nálgast landið

Óhætt er að segja að mikið sé um að vera í togaranýsmíðunum fyrir Íslendinga því á morgun er nýr frystitogari Ramma hf., Sólber ÓF-1 væntanlegur til Siglufjarðar en skipinu verður formlega fagnað með hátíðarsamkomu á laugardaginn. Þar mun almenningi gefast kostur á að skoða skipið. Reiknað er með að Sólberg haldi í sína fyrstu veiðiferð nú í byrjun júní.

Akurey í reynslusiglingu

Síðasta sólarhringinn hefur nýr ísfisktogari HB Granda hf., Akurey AK verið í prufusiglingum á Marmarahafi en skipið er systurskip Engeyjar RE sem kom til landsins í janúar síðastliðnum. Akurey er væntanleg til landsins í júní og hefst þá vinna við að setja niður vinnslubúnað og lestarkerfi. Þriðja skipið í þessari togaraseríu HB Granda, Viðey RE, kemur síðan til landsins síðla árs.

Breki og Páll taka lit!

Páll Pálsson í Kína fær á sig litÍ hafnarborginni Shidao í Kína eru loks tveir íslenskir ísfisktogarar í smíðum, Breki VE fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Páll Pálsson ÍS fyrir Hraðfrystistöðina Gunnvöru í Hnífsdal. Þessa dagana er verið að sandblása skipin og mála en þau eru væntanleg til landsins síðsumars eða snemma í haust. Reikna má með að heimsigling taki yfir 40 sólarhringa.

 

 

Deila: