„Tekið á málum sem hafa verið í ólestri“

Deila:

Frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga  um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu, sem felur í sér auknar heimildir Fiskistofu til eftirlits með þeim sem hafa leyfi til vigtunar afla upp úr skipum og bátum, fær góðar undirtektir hjá hagsmunasamtökum í sjávarútvegi og stofnunum hans.

Farmanna- og fiskimannasambands Íslands telur löngu tímabært að bregðast með afgerandi hætti við því misræmi sem borið hefur á og felst í mjög miklum frávikum á íshlutfalli landaðs afla og styður eindregið þessa lagabreytingu.

VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna fagnar framkomnum breytingum á lögum um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og lögum um Fiskistofu nr. 36/1992. Með þessum breytingum er verið að taka á málum sem hafa verið í ólestri og skapað óánægju með framkvæmd réttrar aflaskráningar. Félagið tekur undir með tilgangi breytinganna, sem er að auka áreiðanleika endurvigtunar til að ná fram nákvæmari aflaskráningu. Með þessum breytingum mun jafnræði milli útgerðaraðila og almennt traust á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu aukast. Félagið hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þeirri braut að tryggja að afli íslenskra fiskiskipa sé rétt vigtaður. Að fenginni reynslu um lög og reglur á íslandi er það skoðun félagsins að allt of vægt sé tekið á því þegar aðilar eru staðnir að því að brjóta þau. Því eigi refsiákvæði að vera það ströng að þau hafi sterkan fælingarmátt.

Hafnasamband íslands fagnar fram komnu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um Fiskistofu (eftirlit með vigtunarleyfishöfum.) Telur hafnasambandið afar mikilvægt að auka öryggi og áreiðanleika vigtunar hjá vigtunarleyfishöfum eins og tilgangur frumvarpsins er. Par sem ekki er að finna í lögum eða reglugerðum sem um vigtarmál fjalla orðskýringu á vigtunarleyfishöfum, vill hafnasambandið taka það skýrt fram að skoðun þess er að íslenskar hafnir flokkist ekki sem vigtunarleyfishafar. Skoða ber álit Hafnasambandsins við frumvarpið í þessu ljósi. Þá vill hafnasambandið ítreka þá ósk sína að gerður verði samningur við hafnirnar um greiðslu fyrir þá þjónustu sem þær veita ríkinu með vigtun og skráningu sjávarafla í þágu fiskveiðistjórnunarkerfi ríkisins.

Hafrannsóknastofnun fagnar því að auknar verði eftirlitsheimildir Fiskistofu til að tryggja að aflaskráning sé eins nákvæm og kostur er enda geta rangar aflatölur haft áhrif á þá vinnu sem Hafrannsóknastofnun sinnir varðandi mat á stærð fiskistofna sem og ráðgjöf um nýtingu þeirra.

Landssamband smábátaeigenda fagnar framkomnu frumvarpi og hvetur nefndina að afgreiða það sem fyrst. Gildandi vigtarreglur hafa fengið það orð á sig, og ekki að ástæðulausu að þar sé að finna stærstu ívilnun til kvóta sem í gildi er. LS hefur margsinnis vakið athygli á því ófremdarástandi sem ófullnægjandi ákvæði laganna leiða af sér varðandi gríðarlega mismunun. LS harmar að ekki skuli hafa verið brugðist fyrr við ábendingum félagsins.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lengi bent á mikilvægi þess að rétt skráning afla sé ein af lykilstoðum við stjórn fiskveiða. Þær heimildir sem Fiskistofu er færðar til að tryggja rétta aflaskráningu er ásættanlegt skref til þess að stuðla að ábyrgri stjórn fiskveiða. Engu að síður benda samtökin á að gæta verður varúðar við auknar valdheimildir Fiskistofu, en gera verður miklar kröfur til Fiskistofu að hún fari málefnalega og faglega með þessar valdheimildir og gæti að stjórnsýslulögum og réttaröryggi þeirra sem að hún kemur til með að beita gagnvart þessum heimildum, sérstaklega í ljósi þess að lagaheimildirnar eru háðar mati Fiskistofu hverju sinni.

Nánar má sjá um frumvarpið á eftirfarandi slóð:

http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=146&mnr=412

 

Deila: