Þokkalegasta nudd á Vestfjarðamiðum

Deila:

Þrír af fjórum ísfisktogurum HB Granda eru nú að veiðum á Vestfjarðamiðum eftir að hafa haldið sig á suðvesturmiðum undanfarna mánuði. Ásbjörn RE og Helga María AK eru á Halanum en Sturlaugur H. Böðvarsson AK var að veiðum í Víkurálnum er tal náðist af skipstjóranum, Magnúsi Kristjánssyni í gær.

,,Það er þokkalegasta nudd hérna en við erum að eltast við karfa og ufsa. Þorskinn er auðvelt að veiða þannig að við sækjum ekki beint í hann. Við reynum að vera með um þriðjung aflans af þorski  og vonandi nær heildaraflinn í veiðiferðinni svo skammtinum sem vinnslunni hentar. Ef það næst þá erum við ánægðir,“ sagði Magnús á heimasíðu HB Granda, en er rætt var við hann var alls búið að taka sex hol í túrnum.

Að sögn Magnúsar forðast ísfisktogararnir ýsu en talið er heppilegra að frystitogararnir sjái um að veiða ýsukvóta félagsins.

,,Það er komin blíða núna eftir bölvaða brælu í gær og veðurhorfur fyrir helgina eru góðar. Útlitið er sem sagt ágætt og vonandi verða aflabrögðin í samræmi við það,“ sagði Magnús Kristjánsson.
 

 

Deila: