Lítur söluna á Vísi jákvæðum augum

Deila:

Hlutabréf í Síldarvinnslunni hafa hækkað í dag eftir að tilkynnt var um kaup á Vísi hf. í Grindavík. Framkvæmdastjóri Vísis segir að staða fyrirtækisins í Grindavík verði tryggð eins og kostur er. Forseti bæjarstjórnar segir söluna hafa komið sér á óvart en að fagnar frekari uppbyggingu í sjávarútvegi. Farið er yfir málið á ruv.is

Síldarvinnslan í Neskaupstað, eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, hefur fest kaup á öllu hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis. Í tilkynningu til Kauphallar segir að kaupverðið sé um 20 milljarðar króna og skuldir Vísis um ellefu milljarðar, og nema viðskiptin því 31 milljarði.

Greitt er fyrir hlutinn bæði með reiðufé og bréfum í Síldarvinnslunni og seljendur verða því stórir eigendur í fyrirtækinu. Pétur Hafsteinn Pálsson verður áfram framkvæmdastjóri Vísis.

„Þessi kaup eru gerð með það í huga að styrkja bæði fyrirtæki. Og það sem hluthafar Vísis eru að gera er raunverulega að skipta hlutabréfunum í sínu fjölskyldufyrirtæki sem er á almennum markaði. Og það er bara hlutur sem flest eða mörg fyrirtæki standa frammi fyrir einhvern tímann á sinni lífsleið,” segir Pétur Hafsteinn.

Hann segir að reynt verði að tryggja stöðu fyrirtækisins. „Starfsemi allra fyrirtækja byggja bara á forsendunum og við erum sannfærð um að forsendurnar, staðsetning, fjárveiting og fólkið, að það eru forsendur sem standast tímans tönn. Við hefðum aldrei komið að þessum við skiptum ef það væri ekki eins neglt niður og hægt er, að uppbyggingin heldur áfram á okkar grunni og með okkar starfsfólki.”

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, lítur söluna jákvæðum augum.

„Þetta kom mér nú í opna skjöldu í gærkvöldi þegar ég sá fréttirnar, ég verð að segja það. En Vísir tengist náttúrlega lífi okkar Grindvíkinga, sjávarútvegurinn og Vísisfjölskyldan skipar stóran sess hérna í samfélaginu,” segir hún.

Bæjarstjórnin átti í morgun fund með Pétri hjá Vísi og Gunnþóri B. Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, þar sem farið var yfir næstu skref.

„Þeir töluðu, eins og áður hefur komið fram, að þetta myndi efla starfsemina og hún yrði öflugri. En við höfum ákveðna sérstöðu hérna í Grindavík og hvað varðar staðsetningu við flugvöllinn og Vísir er með þetta hátæknihús í bolfiskvinnslu og svo ræddum við líka allan mannauðinn og þekkinguna sem liggur þar þannig að við ætlum að horfa á þetta jákvæðum augum.”

Þá hafi verið farið yfir áform um fiskeldi í Grindavík. „Það var einn þáttur í þessu en eins og ég segi þá mun bærinn gera hvað hann getur til að vinna með þeim í þessari uppbyggingu.“

 

Deila: