Stjórnvöld ætla ekki að hvika frá stefnu sinni

Deila:

Íslensk stjórnvöld ætla ekki að breyta utanríkisstefnu sinni og munu áfram taka þátt í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í samtali við ruv.is. Stjórnvöld muni hins vegar áfram beita Rússa þrýstingi til að halda mörkuðum opnum fyrir íslenskar sjávarafurðir.

Í gær birtist grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, í Viðskiptablaðinu þar sem hún kallar eftir því að stjórnvöld endurskoði þátttöku sína í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum, sem hafi komið hart niður á íslenskum sjávarútvegi vegna banns Rússa á innflutningi á íslenskum sjávarafurðum í kjölfarið.

Vakandi yfir hagsmunum Íslands

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, segir stjórnvöld ávallt vakandi yfir hagsmunum Íslands á mikilvægum mörkuðum, til að mynda í Bretlandi eftir Brexit, Kína og nú síðast Nígeríu þar sem nýverið var lokað á innflutning sjávarafurða.

„Ég skil náttúrulega vel það sem Heiðrún Lind er að segja, hún er náttúrulega metnaðarfull fyrir sína umbjóðendur, en það er alveg ljóst að utanríkisstefna Íslands er skýr,“ sagði Þorgerður Katrín í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. „Utanríkisráðherra hefur sagt það ítrekað að við munum fylgja eftir og vera með okkar vestrænu banda- og vinaþjóðum og ég er sammála honum í því. Við eigum ekkert að hvika frá þeirri stefnu.“

Gengið stærsta vandamálið

Þorgerður segir gengi íslensku krónunnar helst leika sjávarútveginn, sem og landbúnaðinn, grátt og að íslensk stjórnvöld leggi mikla áherslu á viðræður við Rússa um að halda mörkuðum þar opnum fyrir íslenskar sjávarafurðir. Aðrar þjóðir í svipaðri stöðu, eins og til að mynda Norðmenn, geri slíkt hið sama.

Sjávarútvegsráðherra heldur til Kanada í næstu viku til að sitja fund ráðherra Atlantshafsríkja, þar sem hún hyggst ræða við sjávarútvegsráðherra Rússlands til að halda viðræðum ríkjanna gangandi.

„(Við þurfum að) vera lunkin í þessum samskiptum, en stefna Íslands er sú að við erum ekki að fara frá þeirri samstöðu sem vestrænar þjóðir hafa sýnt gagnvart Rússum,“ segir Þorgerður Katrín.

 

Deila: