Ufsi og karfi standa vel

Deila:

Svo virðist sem stofnar ufsa og gullkarfa séu nokkuð sterkir samkvæmt stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar. Sömu sögu er að segja af keilu og löngu, en minna er um steinbít nú en áður. Þá verður nú meira vart við smálúðu en áður.

Ufsi

Stofnvísitala ufsa hækkaði frá fyrra ári og er nú hærri en undanfarinn áratug. Taka þarf vísitölum ufsa með þeim fyrirvara að þær ráðast oft af miklum afla í stökum togum og staðalfrávik mælinganna eru þá há. Svo hefur þó ekki verið undanfarin ár. Hækkun vísitölunnar í ár má rekja til óvenju mikils magns af 50-60 cm ufsa sem er 5 ára gamall og mældist þessi árgangur einnig stór árið 2016. Í ár fékkst ufsi víða en mest fyrir norðvestan og sunnanvert land.

Gullkarfi

Vísitala gullkarfa í marsralli hefur farið hækkandi frá 2008 og mælingar síðustu tveggja ára eru þær hæstu frá 1985. Í seinni tíð hefur sífellt minna fengist af gullkarfa undir 30 cm. Gullkarfi fékkst víða en mest djúpt út af Faxaflóa, Breiðafirði og sunnanverðum Vestfjörðum þar sem nokkur stór tog fengust eins og undanfarinn áratug. Magn gullkarfa fyrir norðan land hefur einnig aukist.

Langa

Vísitala löngu hækkaði á árunum 2003-2011 eftir að hafa verið í lágmarki áratuginn þar á undan. Frá árinu 2012 hefur vísitalan verið há en sveiflukennd. Lítið mældist af 35-55 cm löngu en magn smærri löngu var í meðallagi. Að venju fékkst mest af löngu fyrir sunnan og vestan land, allt frá Íslands-Færeyjahrygg að Halamiðum.

Keila

Vísitala keilu í marsralli hefur haldist há frá árinu 2004, líkt og var árin 1985-1992. Vísitalan í ár samanstendur að mestu af 40-65 cm keilu, en keila á lengdarbilinu 15-35 cm var einnig áberandi. Keila fæst víða en í litlu magni og útbreiðsla hennar hefur ekki breyst mikið síðustu þrjá áratugi.

Steinbítur

Stofnvísitala steinbíts lækkaði frá fyrra ári eftir að hafa hækkað síðustu fjögur ár frá lágmarkinu 2010-2013. Vísitala allra lengdarflokka að 70 cm lengd var undir meðaltali rannsóknatímans. Steinbítur fékkst víða, mest á Vestfjarðamiðum eins og oftast áður en óvenju mikið fékkst nú á grunnstöðvum við sunnanverða Vestfirði.

Skarkoli

Stofnvísitala skarkola hefur smám saman farið hækkandi frá því hún var í lágmarki á árunum 1997-2002. Vísitalan nú er svipuð og hún var árin 1987-1988 en lægri en fyrstu tvö ár mælingarinnar. Skarkoli fæst víða á grunnslóð við landið, mest sunnan- og vestanlands. Í ár fékkst mest við Reykjanes og í Breiðafirði og þá fékkst skarkoli víða á Vestfjarðamiðum.

Aðrir flatfiskar

Vísitölur langlúru og þykkvalúru fóru lækkandi fyrstu árin í marsrallinu en hækkuðu á árunum eftir aldamót. Vísitala langlúru hefur mælst svipuð undanfarin sex ár, en vísitala þykkvalúru hefur verið sveiflukennd og lækkandi frá hámarkinu 2006. Vísitala lúðu í stofnmælingunni lækkaði hratt á árunum 1986-1990 og hefur haldist lág síðan. Mjög lítið fékkst af lúðu í marsralli árin 2008-2014 og stofnvísitalan þessi ár var um 20 sinnum lægri en árin 1985-1986. Síðustu þrjú ár hefur orðið vart við vaxandi magn af smálúðu og mest fékkst nú af 40-80 cm lúðu. Vísitölur sandkola og skrápflúru hafa verið lágar undanfarinn áratug og svo var einnig í stofnmælingunni ár. Stofnvísitala stórkjöftu var mjög lág á árunum 1996-2001. Hún fór þá hækkandi og hefur verið nokkuð stöðug síðastliðinn áratug.

Deila: