Meira mælist af ýsu

Deila:

Stofnvísitala ýsu hækkaði frá fyrra ári samkvæmt mælingum Hafrannsóknastofnunar í mars. Vísitalan hækkaði verulega á árunum 2002- 2006 í kjölfar góðrar nýliðunar og aukinnar útbreiðslu norður fyrir land. Næstu fjögur árin þar á eftir fór vísitalan lækkandi og mældist lág á árunum 2010- 2016. Lengdardreifing ýsunnar sýnir að 40-55 cm ýsa er undir meðaltali í fjölda, en stærri ýsa er yfir meðaltali.

Ýsa stofnvísitala 2017

Lengdardreifing og aldursgreiningar benda til að árgangurinn frá 2014 sé sterkur, en hann kom í kjölfar sex lélegra árganga. Árgangar 2015 og 2016 mældust undir meðalstærð. Ýsan veiddist á landgrunninu allt í kringum landið en meira fékkst af ýsu fyrir norðan land en sunnan.

Breyting varð á útbreiðslu ýsunnar fyrir rúmum áratug, en árin 1985-1999 fékkst alltaf meira af ýsu við sunnanvert landið. Meðalþyngd ýsu eftir aldri hefur farið vaxandi á undanförnum árum og mældist nú yfir meðaltali hjá öllum aldurshópum nema þriggja ára. Það er í samræmi við fyrri niðurstöður sem sýna að sterkir árgangar ýsu vaxa hægt. Magn fæðu í ýsumögum var minna en undanfarin ár. Loðna var rúmlega helmingur af fæðu stærstu ýsunnar líkt og fyrri ár, en smærri ýsa étur hlutfallslega meira af botndýrum svo sem slöngustjörnum og burstaormum.

Deila: