Kolmunninn genginn í færeyska lögsögu

Deila:

Venus NS kom til heimahafnar á Vopnafirði í gær með um 2.500 tonn af kolmunna. Aflinn fékkst í nokkrum holum í færeyskri lögsögu en kolmunninn hefur gengið af krafti norður með Skotlandi og inn í færeysku lögsöguna á undanförnum dögum.

,,Það má segja að þetta sé annar kolmunnaveiðitúr ársins hjá okkur og sá fyrsti í færeyskan sjó,“ segir Róbert Axelsson, skipstjóri á Venusi, í samtali á heimasíðu HB Granda, en hann segir áhöfnina á Venusi hafa farið allt suður að Rockall í fyrstu veiðiferðinni. Þá hafi aflinn verið að detta niður og því hafi áhöfnin reynt fyrir sér á alþjóðlegu hafsvæði norðan við Rocall. Aflabrögð hafi hins vegar verið treg og bestu aflabrögðin hafi verið inni í ESB lögsögunni. Reyndar hafi aflinn verið það góður að ESB skipin séu búin með kvóta sína og Norðmenn séu í svipaðri stöðu eftir að hafa veitt meira en 200 þúsund tonn.

,,Þetta er allt að koma núna og mikið af ágætum kolmunna er að ganga norður í færeysku lögsöguna. Við, ásamt Víkingi AK, leituðum vars í höfn á Suðurey í síðustu viku vegna veðurs en eftir að við fórum út að nýju á Skírdag hefur þetta verið fínt og veiðin góð,“ sagði Róbert Axelsson sem bjóst við að komast aftur til veiða í kvöld að lokinni löndun. Þá mun afli Víkings bíða löndunarmanna en Víkingur kom til hafnar á Vopnafirði seint í gærkvöldi.
 

 

Deila: