Vinnsla Ísfisks á Akranesi hafin að hluta
Fiskvinnslan Ísfiskur í Kópavogi hóf fiskvinnslu í fyrrum húsakynnum HB Granda á Akranesi fyrir skömmu. Ísfiskur hyggst flytja alla vinnslu sína til Akraness en bíður skipulagsbreytinga í Kópavogi samkvæmt eftirfarandi frétt af ruv.is
Margir misstu vinnuna
86 starfsmönnum var sagt upp í fiskvinnslu HB Granda á Akranesi í maí í fyrra. Starfsfólki gafst kostur á að sækja um önnur störf hjá HB Granda á Akranesi eða hefja störf í Reykjavík. Hildigunnur Sif Aðalsteinsdóttir starfaði fyrir HB Granda. „Ég sótti um störf hjá þessum fyrirtækjum sem þeir eiga hér en það voru ekkert margrir ráðnir þar og það hentaði mér ekki að fara í bæinn. Ég er með lítið barn sem fer á leikskóla á morgnana og ég hefði aldrei náð að fara með hann á leikskólann og koma mér svo suður á þessum tíma.“
Ísfiskur keypti húsnæði HB Granda
Í ágúst í fyrra ákvað fiskvinnsla Ísfisks í Kópavogi að kaupa húsnæði HB Granda og flytja vinnsluna úr Kópavogi á Akranes. Vinnslan er þó enn á báðum stöðum og verður ekki flutt að fullu fyrst um sinn eins og til stóð. „Þegar við fórum af stað með þetta þá töldum við kannski að okkar tími væri kominn að fara úr Kópavogi, að það væri kominn það mikill þrýstingur á þetta svæði, á endurskipulagningu og nýbyggingu, en svo gengur það aðeins hægar fyrir sig en við áttum von á,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks. Albert segir hagstæðara fyrir fyrirtækið að losa lóðina í Kópavogi þegar skipulagsbreytingum verður lokið. Óvíst sé hversu langan tíma það taki. Það sé þó hentugra að hafa vinnsluna alla á sama stað.
Vel tekið á Akranesi
Allt starfsfólk Ísfisks á Akranesi er nýtt og í hópnum er fólk sem fylgdi HB Granda til Reykjavíkur um tíma. Guðrún Linda Helgadóttir segir ferðirnar á milli Akraness og Reykjavíkur hafa verið erfiðar og tekið einn til einn og hálfan tíma aðra leið. „Ég lét mig hafa það og vann þarna fram í febrúar.“ Guðrún Linda var fegin að geta haldið aftur til starfa á Akranesi.
Albert segir að bæjarsamfélagið hafi tekið fyrirtækinu mjög vel og er þakklátur og ánægður með það. Hann vonar að fyrirtækið geti fest sig í sessi og skapað stöðuga vinnslu og sömuleiðis stöðugt fyrirtæki.