Mismunandi umsagnir

Deila:

Félög smábátaeigenda á landinu eru nú að senda inn umsagnir um frumvarp um breytingar á fyrirkomulagi strandveiða í sumar. Umsagnirnar eru mjög mismunandi eftir svæðum. Ýmist er mælt með frumvarpinu eða því andmælt.

Elding, félag smábátaeigenda á Vestfjörðum lýsir yfir mikilli ánægju með frumvarpið og telur þau 2.000 viðbótartonn til strandveiða muni verða til að veiðarnar verði raunhæfur kostur fyrir nýliða til að hefja útgerð smábáta.

Umsögn Eldingar er eftirfarandi:

„Elding, félag smábátaeigenda á norðanverðum Vestfjörðum lýsir yfir mikilli ánægju með framkomið frumvarp um strandveiðar.

Með þessum breytingum og þessum 2.000 viðbótartonnum er það orðinn raunhæfur kostur fyrir nýliða að hefja útgerð smábát í strandveiðikerfinu.

Það er ekki síst að geta valið sína 12 daga að öryggi trillukarla stóreykst, á sama hátt verður það ekki tvöfalt tjón ef að upp kemur bilun í bátnum á föstu dögunum.

Það er mikið rekstraröryggi í því að geta gengið að öruggum 48 dögum yfir sumarið, þar sem að það eru litlar líkur á skerðingum eftir viðbótina og að eigendaákvæðinu verði framfylgt.

Verð á mörkuðum mun verða stöðugra (dæmi er um línubáta sem ekki róa fyrstu dagana í hverjum strandveiðimánuði undanfarin ár)

Ufsaákvæðið gengur þó ekki upp, verð á ufsa eins og öðrum fiski hefur lækkað mikið.  Það má gera ráð fyrir að verðið á mörkuðum verði 50 – 60 kr/kg.  Það þýðir að sjómaðurinn fær 10 – 12 kr/kg.  Löndunar, sölu og ískostnaður er á bilinu 8 – 9 kr/kg.

Eina raunhæfa ráðið varðandi ufsa er að hafa hann utan kvóta.  Það er ekki tekin nein áhætta varðandi stofninn því mikið hefur brunnið inni undanfarin ár.“

Félagar í Farsæli – félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum eru á öndverðum meiði:

„Fjölmennur fundur í Farsæli félagi smábátaeigenda í Vestmannaeyjum, haldinn 27. mars 2018 tilefni fundarins var frumvarp atvinnuveganefndar um breytingu á strandveiðum.

Ályktun fundarins var sú að við félagsmenn í Farsæli erum algjörlega mótfallnir þeim breytingum sem þar koma fram. Og erum í einu og öllu sammála ályktun frá Smábátafélaginu Hrollaugi á Hornafirði. Þar sem fram kemur m.a. að heildarkvóti mun verða í einum potti í stað svæðisskipts kvóta. Fyrir hverja er þetta?“

Fontur, félag smábátaeigenda á N-Austurlandi hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið lýsir andstöðu með strandveiðifrumvarpið.  „Hins vegar ef tryggðir eru 12 dagar í mánuði, 4 mánuði ársins, samtals 48 dagar, munum við styðja frumvarpið,“ segir í yfirlýsingum frá félaginu.

„Fontur, félag smábátaeigenda á Norðausturlandi, lýsir yfir andstöðu við frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis sem lítur að strandveiðum.  Teljum við það skerða hlut C svæðis, sem mun fækka bátum á svæðinu.  Innan svæðisins eru brothættar byggðir sem mega ekki við því.

Lítil veiði er á svæði C í maí og júní þannig að júlí og ágúst eru bestu mánuðirnir á svæðinu.  Teljum við að lítið verði eftir af heildarkvótanum í þeim mánuðum, jafnvel að ágúst detti út.

Þetta frumvarp mun hvetja menn til þess að færa sig frá svæði C yfir á svæði A.

Hins vegar ef tryggðir eru 12 dagar í mánuði, 4 mánuði ársins, samtals 48 dagar, munum við styðja frumvarpið.“

 

Deila: