Þungt ár í bolfiskvinnslunni

Deila:

Á árinu 2017 tók fiskvinnslustöð Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði á móti 2.625 tonnum af bolfiski til vinnslu, þar af var þorskur um 1.980 tonn og ufsi 491 tonn. Er þetta mun minna hráefni en unnið var á árinu 2016 en þá var tekið á móti um 3.500 tonnum. Ein helsta ástæða minnkandi vinnslu á milli áranna er sjómannaverkfallið í upphafi sl. árs.

Ómar Bogason framleiðslustjóri fiskvinnslustöðvarinnar segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að árið 2017 hafi verið þungt í bolfiskvinnslunni. „Verkfallið í upphafi árs hafði sín áhrif og leiddi til þess að ekkert var unnið fyrstu tvo mánuði ársins. Hin sterka króna hafði neikvæð áhrif á afkomuna og eins lækkaði afurðaverð á okkar helstu mörkuðum, einkum varð verðlækkunin mikil á ufsaafurðum. Þá hefur launakostnaður aukist til muna. Á árinu lauk framkvæmdum við að klæða fiskvinnslustöðina að utan og nú er húsið orðið til fyrirmyndar sem okkur finnst afar jákvætt,“ sagði Ómar.

Aflinn sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðinni á Seyðisfirði kemur frá togaranum Gullver NS og að hluta til frá Vestmannaeyjatogurunum Vestmannaey og Bergey. Gullver fiskaði 4.350 tonn á árinu 2017 og er það mesti afli sem skipið hefur borið að landi á einu ári. Afli Gullvers var 300 tonnum meiri en á árinu 2016 en aflaverðmætið hins vegur 15 milljón krónum minna.

 

Deila: