Fjörur gular af loðnuhrognum

Deila:

Loðnan er nú síðustu árin að hrygna í einhverjum mæli fyrir Norðurlandi. Svo hefur hins vegar ekki verið í nokkra áratugi þar á undan. Hrygning loðnu fyrir Norðurlandi er þó ekkert einsdæmi. Á hlýindaskeiði síðustu aldar var slík hrygning algeng og fjörur fyrir Norðurlandi oft á tíðum gular af loðnuhrognum í mars og apríl, þegar hrygningin ver sem mest. Menn veiddu þá loðnu á smábátum í beitu og til matar, en engar loðnuveiðar í nót voru stundaðar. Bergsteinn Garðarsson fyrrum trillukarl á Akureyri segir meðal annars frá þessu í viðtali við Hjört Gíslason í bókinni Trillukarlar, sem kom út árið 1991.

Vegna umræðna um breytta hegðun og göngu loðnunnar nú á vertíðinni og fullyrðinga um að slíkt sé nánast einsdæmi, er því ágætt að rifja um frásögn Bergteins:

„Frá því upp úr 1960, kom geysilegt magn af loðnu inn á fjörðinn á vorin. Sum árin fyllti hún allt, bæði ósa og polla við fjöruna og Pollurinn var alveg fullur af loðnu og þessu fylgdi mikið af fiski. Þetta gekk svona alveg þar til farið var að veiða loðnuna í stórum stíl. Þegar loðnuveiðin var svo bönnuð um 1982 til 1983, var loðnan alveg hætt að koma, en eftir þessa hvíld varð hennar vart á ný unz hún hvarf svo aftur. Þetta var allt hrygningarloðna, sem kom á vorin og hún hrygndi um allar fjörur. Það var alveg gulur botninn og þegar féll út voru fjörurnar gular. Á Gæseyri voru svo mikil hrogn í fjörunni, að það var illmögulegt að ganga hana. Hrognin voru þá komin saman við sandinn og orðin úr því flughál gul drulla. Þegar ég var að lýsa þessu fyrir fiskifræðingum fyrr á árum, sögðu þeir einfaldlega að það hrygndi engin loðna við Norðurland og sama sögðu þeir um þorskinn, alveg sama hvað við sögðum þeim um þetta. Eyjafjörðurinn virðist vera eins og barometer á ástand loðnustofnsins og reyndar síldarinnar líka.

Það var alltaf mikill síldaruppvöxtur hér í firðinum á árum áður og við fiskuðum mikið af síld í beitu, en þegar síldveiðar voru svo bannaðar, máttum við ekki taka í beitu lengur. Það var reyndar sjálfhætt fyrir okkur, því hér var engin síld fyrst eftir hrunið mikla. Síðan hefur síldin blómstrað svo glæsilega og við urðum þess varir að fljótlega fór að koma hér síldaruppvaxningur á hverju ári. Síldin er hér þar til hún er orðin millisíld. Þá fer hún austur um og suður, en seiðin koma að vestan til uppvaxtar. Reynslan er sú, að um leið og hörgull fer að verða á síld og loðnu á hefðbundnum miðum, hættir hún að sjást hérna. Þetta er reyndar eins með þorskinn,“ sagði Bergsteinn Garðarsson í viðtalinu.

Deila: