Mikið af iðnaðarrækju flutt inn til vinnslu

Deila:

Innflutningur á óunnum fiski til landsins nam um 130.400 tonnum á síðasta ári. Verðmæti þess afla var 9,7 milljarðar króna. Mælt í magni var loðnan uppistaðan í þessum innflutningi en mestu verðmætin voru í rækju.

Alls var tæpum 70.000 tonnum af loðnu landað hér hjá íslenskum fiskimjölsverksmiðjum á síðasta ári af norskum, færeyskum og grænlenskum skipum. Verðmæti þess afla var 2,6 milljarðar króna. 38.350 tonnum af kolmunna var sömuleiðis landað hér af erlendum skipum og var verðmæti þess afla rúmlega einn milljarður. Verðmæti landaðs makrílafla af erlendum skipum var um 110 milljónir króna og magnið ríflega 3.000 tonn.

Það er hins vegar rækjan sem mestu máli skiptir í innflutningi fiskmetis til áframhaldandi vinnslu. Á síðasta ári nam sá innflutningur 15.000 tonnum að verðmæti 5,3 milljarðar króna. Þetta er í langflestum tilfellum iðnaðarrækja til pillunar og endurútflutnings há íslenskum rækjuvinnslum.

Þá má nefna að erlend fiskiskip lönduðu hér 1.850 tonnum af þorski að verðmæti 470 milljónum króna.

 

Deila: