Minna veiðist af þorski

Deila:

„Að undanförnu hafa verið háværar raddir um að minna sé af þorski en verið hefur sl. ár.  Strandveiðimenn upplifðu þetta á síðastliðnu sumri á þann hátt að erfiðara var að ná „skammtinum“ – 774 kg af þorski.  Það þurfti að hafa meira fyrir veiðunum.“

Svo segir í færslu á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Og  þar segir ennfremur: „Það sem af er fiskveiðiárinu hafa togarasjómenn látið heyra frá sér.  Þar eru notuð sterkari lýsingarorð.  Allt frá því að ekkert sé að hafa og niður í að ekki sé hægt að ganga að honum sem vísum, það þurfi að hafa fyrir þessu.

Miðað við skýrslur Hafrannsóknastofnunar kemur þetta á óvart og vonandi að hér sé aðeins um tímabundið ástand að ræða.  Við skoðun á aflatölum Fiskistofu staðfesta þær samdrátt hjá skipum í aflamarkskerfinu.  Veiðiheimildir á heilu fiskveiðiári á grundvelli hlutdeildar og þess sem fært var milli ára jukust um 5,2% (10.580 tonn) í aflamarki og 4,2% (1.924) í krókaaflamarki.

Eins og sjá má í meðfylgjandi samantekt hefur þorskafli hjá skipum í aflamarki dregist saman um 3.835 tonn sem jafngildir -8,3%.  Þau höfðu á sama tíma í fyrra nýtt 22,7% af þorskveiðiheimildum sínum en nú er hlutfallið 19,8%.

Við skoðun einstakra veiðarfæra er samdráttur langmestur í dragnót.  Þorskveiði í voðina er 31% minni það sem af er fiskveiðiárinu miðað við sama tímabil í fyrra, jafngildir eitt þúsund tonnum.  Veiði í net er 18,5% minni, 10,3% á handfæri og 6,3% í botnvörpu.  Þorskveiðar á línu hafa hins vegar gengið betur það sem af er fiskveiðiárinu, þar er afli 3,2% meiri en hann var í fyrra.“

 

Deila: