Vinnslukerfi frá Micro í fjórar nýsmíðar

Deila:

Micro í Hafnarfirði vinnur nú að niðursetningu vinnslu- og kælibúnaðar í skip Gjögurs, Vörð og Áskel. Vörður verður væntanlega tilbúinn til veiða um næstu mánaðamót og Áskell nokkru síðar. Síðan hefst vinnsla við skip Skinneyjar-Þinganess, en þau skip eru væntanlega til landsins í desember.

Þríþætt starfsemi

Micro er um það bil 25 ára fyrirtæki og búið að vera í ýmsum verkefnum síðan það var stofnað, en upphafið var í nýsmíðum og viðhaldi fyrir skip og báta. Þá var félagið og hefur verið undirverktaki í smíðum fyrir fyrirtæki eins og Marel, Völku og Skagann 3X og fyrir bátasmiðjuna Rafnar. „Við höfum svo einnig farið út í að smíða meira af okkar eigin hönnun og lausnum, bæði fyrir landvinnslur og skip, en alltaf haldið bæði viðhalds- og undirverktakaþættinum meðfram. Starfsemin er því eiginlega þríþætt; það er okkar eigin smíði, undirverktaka og reglubundið viðhald á skipum stærri fyrirtækja.  Við erum að vinna mikið fyrir Brim, áður HB Granda, Þorbjörn í Grindavík og margar stærri útgerðir,“ segir Gunnar Óli Sölvason, framkvæmdastjóri Micro.

„Við erum að smíða í rauninni allt frá stökum færiböndum og körum upp í heilar vinnslulínur. Okkar þekktasta vara er blæðinga- og kælingarker, sem er kallað drekinn. Það er kæliker sem er fyrir stýrða blóðgun eða kælingu, sem byggist á sama grunni og aðrir gera með öðrum hætti, til dæmis með skrúfum eða öðruvísi körum. Það snýst um að stýra tíma fyrir blæðingu á fiski og eða kælingu,“ segir Gunnar Óli og heldur áfram:

„Við erum að smíða í rauninni allt frá stökum færiböndum og körum upp í heilar vinnslulínur. Okkar þekktasta vara er blæðinga- og kælingarker, sem er kallað drekinn,” segir Gunnar Óli Sölvason .

Búnaður í sex af sjö bátum

„Við erum til dæmis núna að vinna við uppsetningu á vinnslukerfinu í togskipinu Verði sem Gjögur á Grenivík var að láta smíða í Noregi. Það er hluti af sjö báta útboði sem íslenskar útgerðir fóru í. Þar erum við með heil vinnslukerfi fyrir fjóra báta, Vörð og Áskel fyrir Gjögur og Steinunni og Þinganes fyrir Skinney-Þinganes og svo eru líka blæðingarkör frá okkur í Vestmannaey og Bergey. Þau kerfi eru hönnuð og sett upp af Slippnum en við erum með blæðingarkör hjá þeim. Af þessum sjö bátum erum við því með einhvern búnað í sex þeirra.  Við vorum svo með allan vinnslubúnað í skipum Skinneyjar-Þinganess sem voru lengd í ár, Þóri og Skinney. Búnaðurinn í þessum skipum öllum er mjög áþekkur og byggist á því að ná hámarkskælingu uppi á vinnsludekkinu áður fiskurinn fer niður í lest. Lestin er svo  íslaus með kælingu rétt undir frostmarki. Því þarf ekki að ísa fiskinn. Hita í lestunum í ísfiskbátum er yfirleitt haldið í hálfri til einni gráðu þannig að ísinn virki og frjósi ekki saman.“

Samstarf fimm aðila

Vinnslustýringin sem er um borð í þessum skipum er unnin í samstarfi við Völku, allur hugbúnaður og forritun. Þetta er því samstarfsverkefni að segja má fimm fyrirtækja, sem eru Gjögur og Skinney-Þinganes, sem komu mikið að hönnuninni og Micro og Valka sem vinnum vél- og hugbúnað saman og Kæling í Hafnarfirði hefur þróað kælingu á millidekki og í lest. Þetta hefði aldrei gengið upp nema með samstarfi þessara fimm aðila.  Lausnin lítur bara vel út og Þórir er byrjaður að fiska með kerfinu og gengur allt mjög vel.

Humri landað úr Þóri SF í kössunum frá Micro. Þeir draga verulega úr broti á humrinum við færslu af millidekki niður í lest.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Auka gæði humarsins

Skinney og Þórir eru gerð út á fiskitroll og humar. „Þannig að við settum sérstaka humarvinnslu þar um borð í nýsköpunarverkefni í miklu samstarfi við Skinney-Þinganes. Það snéri að því að lágmarka meðhöndlun á humri á vinnsludekkinu til að auka gæði afurðanna uppi á dekki. Humrinum er því raðað í kassa uppi á dekki áður en hann fer niður í lest, sem ég held að hafi ekki verið gert á Íslandi áður. Með því náðist að að auka gæðin töluvert mikið miðað við fyrri aðferðir, þegar humarinn var settur í kör niður í lest. Með þessari breytingu er umtalsvert minna brot í humrinum en áður. Það brot sem kemur fram eftir þessa breytingu er brot sem ekki er hægt að koma í veg fyrir, því það verður í trollinu og tilfærslu frá trolli niður í móttöku. Eftir þetta er sáralítið brot í vinnslunni samkvæmt mælingum sem Skinney-Þinganes er búið að gera með samanburði við fyrri vertíðir,“ segir Gunnar Óli Sölvason

 

 

Deila: