Erfið og skemmtileg vertíð

Deila:

„Þetta var erfið og skemmtileg vertíð. Mikil áskorun. Heilt yfir held ég að menn geti verið alveg sáttir við hvernig veiðar og vinnsla gengu á vertíðinni. Það var samt svolítið taugastrekkjandi að vera ekki í þessari torfu sem menn hafa verið vanir að veiða úr. Því var gott að hafa loðnuna fyrir norðan í bakhöndinni, ef ekki væri góð veiði fyrir sunnan, eins og raun bar vitni,“ segir Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja í samtali við Kvótann.

Ísfélagið er með Álsey, Heimaey og Sigurð á uppsjávarveiðum. „Við byrjuðum á veiðum í janúar og þá aðallega í bræðslu og lönduðum á Þórshöfn, en frystum líka aðeins af hæng fyrir markaði í Austur-Evrópu. Þegar niðurstaða loðnuleiðangurs í janúar kom sem var á þá leið að ekki yrði aukið við kvótann, gerðum við hlé á veiðunum þar til loðnan var orðin hæf til frystingar fyrir markaðinn í Japan. Við frystum þá jöfnum höndum hrygnu á Japan og hæng fyrir Austur-Evrópu, þá mest mest í Vestmannaeyjum. Svo í byrjun mars, þegar loðnan var orðin hæf til hrognatöku fórum við í það og unnum rúm 2.000 tonn af hrognum,“ segir Stefán

Sigurður VE 15

Ólíkt fyrri vertíðum

Vertíðin nú var á margan hátt ólík fyrri vertíðum. „Vertíðir eru svo sem aldrei eins, en þessi var mjög sérstök að því leytinu til að aldrei var veitt úr eiginlegri göngu við suðurströndina eins og oftast. Einn daginn vorum við með skipin öll að veiðum á þremur stöðum. Þá var Álsey í minni Eyjafjarðar, Sigurður út af Reykjanesi og Heimaey austur af Eyjum í Fjallasjónum. Við héldum að við myndum enda út af Vestfjörðum, en síðasti túrinn var í Breiðafirðinum. Sú loðna sem við vorum að veiða þar var langt komin í hrygningu og mikill hængur í aflanum og léleg nýting í hrogn. Þá höfðum við nokkrum dögum áður verið að veiða loðnu sem er trúlega nú að hrygna austan við Eyjar. Hoffellið var svo á veiðum á Húnaflóanum á mánudag. Loðnan hefur verið veidd á Skjálfanda og Eyjafirði og Skagagrunni. Bæði Hoffellið og Polar Amaroq eru búin að vera mikið fyrir norðan.

Þetta er greinilega eitthvað öðru vísi núna en við höfum séð áður. Hvort þetta er einhver varanleg breyting veit maður ekki, en það er ekki sama göngumynstrið á loðnunni fyrir  norðan og þessari sem kemur hérna austan að og fer vestur með suðurströndinni og hrygnir að mestu leyti í Faxaflóa og Breiðafirði.

loðna flott mynd

Lengi vitað af loðnu fyrir norðan

Við vitum reyndar að í gegnum tíðina hafa menn vitað af fyrir norðan. Við erum búnir að benda á það árum saman, eins og Rafn Jónsson, verksmiðjustjóri hjá okkur á Þórshöfn, að trillukarlar í Þistilfirði og víðar fyrir norðan eru að sjá töluvert af loðnu og við höfum fengið frá þeim óhrygnda loðnu í lok maí. Það er því ekki eins miklar fréttir fyrir okkur og fyrir fiskifræðingana að það væri töluvert af loðnu fyrir Norðurlandi. Það er náttúrulega gleðilegt þar sé mikið af loðnu. Norðmenn veiddu nánast allan sinn kvóta fyrir norðan og við erum að ljúka veiði þar. Þess vegna ætlar Hafró að skoða sérstaklega um mánaðamótin apríl-maí hvernig hvernig hrygningunni hefur reitt af fyrir norðan. Það er gott að vita það að þetta hafi sést svona greinilega núna. Við höfum séð myndir frá skipstjórunum okkar af óhemju stórum lóðningum á Skagagrunni og góðum lóðningum inni í Eyjafirði og heyrt frá Norðmönnunum hvað þeir voru að sjá. Það virtist vera meira að sjá fyrir norðan en við urðum til dæmis varir við hérna við suðurströndina og út af Reykjanesinu. Maður gerir sér hins vegar enga grein fyrir því hvort mælingin sem Hafró náði sýndi að magnið væri í raun meira eða ekki en það var klárlega dreifðara en við eigum að venjast. Það verður því gaman að sjá myndina sem Hafró setur upp að venju að lokinni vertíð, en þar er sýnt hvar loðnan veiddist. Verði svo settar saman veiðar Íslendinga og útlendinga held ég að hún verði mjög áhugaverð. Hún veiddist nánast hringinn í kringum landið.“

Meiri rannsókna þörf

„Ég tel að það þurfi rannsaka loðnustofninn miklu betur. Þá er ég ekki bara að tala um veiðarnar. Loðnustofninn er að koma með svo gríðarlega mikla orku inn í vistkerfið. Hann er svo mikil undirstaða fyrir til dæmis þorskinn. Svo er greinilegt að fuglar og hvalir njóta góðs af loðnunni.  Við þurfum alveg klárlega að auka rannsóknirnar og þessar breytingar á göngumynstrinu, sem virðast koma mönnum í opna skjöldu þó það hafi legið fyrir að loðna hafi í mörg ár komið í einhverjum mæli upp að Norðurlandi og hrygnt þar.“

Ísfélagið náði öllum sínum heimildum með „smá aðstoð“ frá Hornfirðingum í restina. „Okkur lá mikið á að komast í kolmunnann á alþjóðasvæðinu vestur af Írlandi. Það var því ákveðið að gefa í hér til að ná í skottið á honum. En nú er eins og kolmunnaveiðin hafi dottið eitthvað niður, en það skýrist bara á næstu dögum. Skipin fóru öll þrjú þangað um helgina.“

Gott verð á mjöli

Stefán segir að afurðaverð hafi verið gott í mjöli, mest vegna þess að ansjósuvertíðin í Perú hafi brugðist. Þegar í ljós hafi komið að kvótinn yrði ekki aukinn við Ísland og loðnan reyndist vera stærri hér en við Noreg, hresstist Japansmarkaður við og sama megi segja um Austur-Evrópu. Nú sé í boði stærri loðna héðan sem hjálpi til.

„Ég held því að ekki verði vandamál að selja þessar afurðir. Hins vegar er algjörlega ómögulegt að segja hvernig verði með loðnuhrognin. Framleiðslan varð umtalsvert minni heldur en menn áttu von á, en á móti kemur að talsverðar birgðir voru til frá síðasta ári. Ég held þó að söluhorfurnar séu góðar en verðið er algjörlega óþekkt stærð eins og er.“
Stefán segir að markaðurinn fyrir hrognin sé býsna dreifður. Japan sé stór markaður og svo fari mikið til Austur-Evrópu af hrognum sem séu ekki af mestu gæðunum. Einnig fari hrogn til landa eins og Kína, Kóreu, Tælands, Tævan og Bandaríkjanna og notkun innan lands sé einnig talsverð. Þá sé reyndar um hrogn að ræða sem séu unninn og flutt út.

Elda upp eða niður!

Framhaldið er svo þessir túrar á kolmunna nú og aftur eftir páska. Síðan er slippur hjá nótaskipunum eftir kolmunnann og undirbúningur fyrir makríl og síld. Á milli uppsjávarvertíða er bolfiskvinnsla á fullu hjá Ísfélaginu. Í Eyjum eru unnar ferskar og frosnar afurðir og léttsaltaðar á Þórshöfn. Félagið gerir út tvo togbáta og einn krókabát. Svo erum við að skipta Suðurey út og fáum togarann Ottó N. Þorláksson í staðinn. Meðan allir eru að smíða nýja togara og yngja upp, erum við að „elda upp eða niður“ eða hvernig maður orðar það,“ segir Stefán Friðriksson

Deila: