Þriggja milljarða króna seiðaeldisstöð

Deila:

Seiðaeldisstöð Arctic Smolt í Tálknafirði sér laxeldi móðurfyrirtækisins Arctic Fish fyrir seiðum. Stöðin hefur verið um þrjú og hálft ár í byggingu og kostað yfir þrjá milljarða. Arctic Fish er að stærstum hluta í eigu Norðmanna og Pólverja og er með leyfi fyrir laxeldi í Dýrafirði, Patreksfirði og Tálknafirði. Um stöðina er fjallað á ruv.is

Endurnýta vatn

Laxahrognin klekjast í fyrsta áfanga seiðaeldisstöðvarinnar, eru þar í 8-10 vikur áður en þau flytjast í startfóðrunardeild. Seiðaeldisstöðin hefur þá sérstöðu að hún endurnýtir vatn. Þá hefur allt vatn verið geislað síðan í haust.
„Til að geta stýrt umhverfinu og hugsanlega drepa það sem óæskilegt að berast inn í stöð,“ segir Sigurvin Hreiðarsson, stöðvarstjóri hjá Arctic Smolt. Þannig hefur til dæmis verið hægt að koma í veg fyrir nýrnaveikismit, sem hrjáði hluta stöðvarinnar.

Vilja fleiri leyfi

Startfóðrunareiningin getur tekið á móti þremur milljónum seiða. Með því að stýra hitastigi vatnsins er hægt að stýra vexti seiðanna og tímasetja hann, miðað við hvenær þau eiga að fara út í sjó. „Við náttúrlega tökum bara inn í stöðina það sem við höfum leyfi til að setja út. Uppbyggingin hér er svo hröð að við eru ekki með nema brot of þeim leyfum sem við vildum hafa.“

Þrír milljarðar og þrjú og hálft ár

Sigurvin segir að að jafnaði starfi um átta manns við seiðaeldisstöðina, sem og fjöldi pólskra verkamanna við framkvæmdir, en stöðin hefur verið um þrjú og hálft ár í byggingu og kostað yfir þrjá milljarða. Framkvæmdum á að ljúka nú í mars, í bili, en enn á eftir að byggja eitt hús. Þegar öllum framkvæmdum verður lokið er áætlað að kostnaðurinn hlaupi á 3,5 milljörðum.

 

Deila: