Fiskistofnar styrkjast

Deila:

Skýrsla um framkvæmd hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sýnir að staða helstu fiskistofna hefur styrkst að undanförnu, þó hægt hafi á þeirri þróun á síðustu árum.

Skýrslan sem unnin er af nefnd ESB sem fjallar um fiskifræði, tæknilegar útfærslur og afkomu í sjávarútvegi, gefur til kynna að ofveiddum fiskistofnum hafi fækkað um 37% á síðustu 10 árum. Þróun fiskistofna sem eru nýttir umfram líffræðileg varúðarmörk er svipuð, en þeim hefur fækkað um helming á sama tíma. Nýliðun í veiðistofnum frá árinu 2003 fer samkvæmt skýrslunni stöðugt vaxandi.

Forstjóri Fiskifélags Evrópu, Europêche, Javier Garat, segir það ánægjulegt að sjálfbærni skuli aukast ár frá ári. Nú séu veiðar úr 53 fiskistofnum við þau mörk að skila hámarks nýtingu miðað við sjálfbærni. Árið 2009 hafi þetta verið 5 fiskistofnar.

Nú sé staðan þannig að ofveiði úr meirihluta fiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi heyri sögunni til og nýtingunni sé stýrt á grunni vísinda. Ekki megi þó einblína á hámarks nýtingu þar, sem meirihluti fiskafla í Evrópu komi úr sjálfbærum veiðum. Fiskistofnar fari vaxandi og afkoma af veiðunum sé orðin betri.

Skýrslan sýnir einnig að dregið hafi úr sóknarþunga á tímabilinu 2003 til 2015. Fiskistofnarnir hafi að mestu leyti farið vaxandi frá árinu 2006 og verið 39% stærri að meðaltali árið 2016 en árið 2003. Þó sé varúðar þörf, sérstaklega í Miðjarðarhafi.

Nú þegar hámarksnýtingu úr mörgum fiskistofnum sé náð, sé það verkefnið ná tökum á stjórn veiða úr einstökum stofnum, sérstaklega þegar um sé að ræða blandaðar veiðar.

 

 

Deila: