Færeyjar auka síldar- og makrílkvóta verulega

Deila:

Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, ákveðið verulega aukningu á veiðiheimildum Færeyinga í norsk-íslenskri síld og kolmunna á þessu ári miðað við heimildir síðasta árs. Heimildir í kolmunna verða 476.901 tonn og 125.597 tonn í síldinni. Þetta er ríflega tvöföldun í síldinni en heldir minna hlutfallslega í kolmunnanum.

Útgefinn kvóti í kolmunna í fyrra var 275.832. Til viðbótar honum komu 71.475, sem færð voru milli ára sem eftirstöðvar af kvóta ársins áður. Samkvæmt fiskveiðisamningi við Rússa fengu þeir heimildir til veiða á 91.500 tonnum af kolmunnakvóta Færeyinga. Fyrir vikið voru heimildir færeyskra skipa til kolmunnaveiða 255.807 tonn í fyrra. Kvótinn í norsk-íslensku síldinni í fyrra var 56.087 tonn, en samkvæmt fiskveiðisamningum við Rússa og Grænlendinga drógust 12.500 tonn frá heildarkvótanum og í hlut færeyskra skipa komu því 43.587 tonn.

Í tilkynningu færeyska sjávarútvegsráðuneytisins nú kemur ekki fram hver hlutur erlendra þjóða úr þessum heildarkvótum verður. Í fyrri tilkynningum um fiskveiðisamninga við önnur ríkur kemur þó fram að Rússar fái 81.00 tonna kolmunnakvóta  hjá Færeyingum og gert er ráð fyrir að síldarafli þeirra geti orðið 10.000 tonn sem meðafli við veiðar á kolmunna og makríl. Þá hefur komið fram að Grænlendingar fái 13.000 tonna kolmunnakvóta og 2.500 tonn af síld við Færeyjar.

„Hin mikla aukning á kvótunum stafar af því að  þau lönd, sem koma að veiðum þessara tegunda komu sér saman um að auka veiðiheimildir í báðum tegundunum í samræmi við tillögur Alþjóða hafrannsóknaráðsins.
Aukningin er einnig vegna þess að sjávarútvegsráðherrann ákvað á síðasta ári að auka hlutdeild Færeyja í ráðlögðum heildarafla þessara tveggja fiskitegunda. Þá er aukningin í síldinni að hluta til til að jafna auknar kröfur annarra fiskveiðiþjóða,“ segir í tilkynningu færeyska sjávarútvegsráðuneytisins.

Høgni Hoydal segir að kröfur Færeyinga til „réttlátrar“ aukinnar hlutdeildar í síld og kolmunna séu vel rökstuddar og undirbyggðar. Það sé afskaplega þýðingarmikið fyrir samningsstöðu Færeyja þegar viðræður fiskveiðiþjóðanna hefjast á ný í haust að færeysku kröfurnar endurspegli veruleika lífríkisins í Norðurhöfum en markmið Færeyinga sé að breyta hlutdeild fiskveiðiþjóðanna í þessum tegundum.

 

Deila: