Engey RE til Reykjavíkur í nótt

Deila:

Engey RE, nýr togari HB Granda hf., nálgast nú landið en skipið kemur frá Tyrklandi þar sem það var smíðað. Áætlað er að það leggist að bryggju í Reykjavík síðla nætur en hafi þar síðan stutta viðkomu áður en því verður siglt á Akranes þar sem sem fyrirtækin Skaginn og 3X Technology  annast niðursetningu vinnslubúnaðar á millidekki og karakerfis í lest skipsins.

Friðleifur Einarsson, skipstjóri, sagði í samtali við tímaritið Ægi nú eftir hádegið að heimferðin hafi gengið vel. „Við höfum verið á lensinu síðustu daga en prófuðum í gær að snúa uppí og láta reyna á skipið í mótvindinum. Það kom mjög vel út og sýndi sig að þessi hönnun á stefninu klýfur ölduna vel, eins og lagt er upp með,“ segir hann en mörgum þykir sérstakt það skrokklag sem er á þessum nýjustu togurum HB Granda, sem og fleiri þeirra nýju skipa sem væntanleg eru í flotann.

Reiknað er með að síðasti áfanginn í smíði Engeyjar taki 8-9 vikur og vonast Friðleifur skipstjóri eftir að komast á veiðar laust fyrir páska. Hann var áður skipstjóri á Ásbirni RE og hefur verið þar um borð í rösklega 20 ár. „Það eru mikil viðbrigði að koma yfir á þetta skip. Allt mjög rúmt og góður aðbúnaður fyrir áhöfnina. Síðan verður auðvitað spennandi að fá búnaðinn á millidekkið og í lestina og reyna skipið á veiðum þegar þar að kemur.“

 

 

 

 

Deila: