Stefna að 8.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi

Deila:

Matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum á 8.000 tonna laxeldi Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi er nú í kynningu hjá Skipulagsstofnun samkvæt frétt á bb.is. Fyrirtækið er í dag með 200 tonn laxeldisleyfi í Djúpinu og starfsleyfi fyrir 4.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi við Sandeyri á Snæfjallaströnd. Gangi áform Arctic Sea Farm eftir, verður horfið frá áætlunum um eldi á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd og lax alinn í staðinn. Umsókn fyrirtækisins beinist að þremur staðsetningum í Ísafjarðardjúpi, við Sandeyri, Laugavík í Skötufirði og rétt út af mynni Skutulsfjarðar.

Arctic Sea Farm – áður Dýrfiskur – er eitt þriggja laxeldisfyrirtækja sem eru með áform um laxeldi í Ísafjarðardjúpi, hin fyrirtækin eru Arnarlax og Háafell, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífdal. Arnarlax vinnur að því að fá leyfi fyrir 10.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi og sama magni í Jökulfjörðum. Háafell er með leyfi fyrir 6.800 tonna eldi á regnbogasilungi í Djúpinu en vinnur nú að því að breyta því leyfi í laxeldisleyfi.

Kynningartími stendur frá 23. janúar til 8. febrúar 2017 og er tillagan aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar.

 

 

Deila: