Skipin streyma til landsins

Deila:

Ný skip eru enn umfjöllunarefni Ægis, en þau hafa beinlínis streymt til landsins á þessu ári. Nú er sagt frá nýrri Steinunni SF, tímamóta plastbátnum barði SH og dráttarbátnum Magna. Rætt er við Sigurð Guðjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Friðrik Karlsson vélstjóra á Harðbak og sagt frá nýsköpunarfyrirtækinu Niceland, sem fer nýjar leiðir í sölu á fiskafurðum í Bandaríkjunum. Ægisviðtalið að þessu sinni er við Willard Fiske Ólason, skipstjóra, sem byrjaði að róa 7 ára á árabát frá Grímsey. Auk þessa er í blaðinu að finna ýmislegt fleira fréttaefni.

Ritstjóri Ægis, Jóhann Ólafur Halldórsson, ritar um sjósókn og mannslíf í leiðara blaðsins:

„Í nútímanum er mjög miklar upplýsingar að hafa frá veðurstöðvum, bæði hérlendis og erlendis. Óveður kemur einfaldlega ekki, eða á í það minnsta ekki að koma neinum í opna skjöldu.
Jafnvel þó að við eigum í flotanum mjög öflug skip þá mátti sjá að flotinn brást vel við viðvörunum fyrir veðurhaminn á dögunum og hélt til hafnar. Á tímabili var ekkert einasta skip á sjó
frá Norðfirði í austri, norður og vestur um allt til Ísafjarðardjúps. Enda hafa engar fregnir borist af óhöppum um borð í skipum vegna veðursins. Mikil áhersla á öryggismálin á vafalítið sinn þátt í þessu en líka hitt hversu miklar upplýsingar eru fyrirliggjandi.

Þrátt fyrir stór og öflug skip þá er ekki teflt á tvær hættur ef hægt er að komast hjá því. Því þegar öllu er á botninn hvolft þá eru það auðvitað mannslífin sem eru aðalatriðið. Tafir frá veiðum skipta engu máli þegar þau eru annars vegar.
Það er mikið fagnaðarefni að engin skráð banaslys á skipum voru á þessu ári, þriðja árið í röð. Það er einstæður árangur og í raun ótrúlegur miðað við þann flota og fjölda báta sem sækir
fiskimiðin við landið. Slysavarnaskóli sjómanna, útgerðir, skipstjórnendur og sjómenn allir geta glaðst yfir þessum árangri.
Hann er ekki sjálfsagður og hann næst ekki af sjálfu sér. Vonandi verðum við sem fiskveiðiþjóð á sömu braut um ókomin ár.
Tímaritið Ægir sendir lesendum, starfsmönnum sjávarútvegi
og fjölskyldum þeirra hátíðarkveðjur og óskir um farsæld á
komandi ári.

Deila: