Færeyingar hætta uppboðum á veiðiheimildum

Deila:

Grundvallar breytingar verða á stjórnun fiskveiða við Færeyjar á nýju ári. Veiðiheimildir munu þá gilda með 12 ára uppsagnarfresti, frjálsu framsali og uppboðum á veiðiheimildum verður hætt.

Í stjórnarsáttmála landsstjórnarinnar frá því í haust er markmiðið með nýrri fiskveiðilöggjöf að þróa nýja sjávarútvegsstefnu sem styrkir stoðir sjávarútvegsins, hvað varðar afkomu, atvinnusköpun, sjálfbærni, og líffræðilega nýtingu, þannig að virðisauki og þróun skili sér sem best fyrir færeyskt samfélag. Til að ná þeim markmiðum var ákveðið að hætta uppboðum á fiskveiðiheimildum, lengja gildistíma veiðileyfa og breyta tilraunakvótum í varanleg veiðileyfi. Með lengingu gildistíma veiðiheimilda er gert ráð fyrir að liðka fyrir nýjum fjárfestingum og nýsköpun.

Frjálst framsal

Veiðum verður áfram stjórnað með fjölda fiskidaga á hvert skip, nýju lögin tryggja frjálst framsal réttinda til veiða. Þannig er ætlað að tryggja að réttindin verði á höndum fyrirtækja sem færust eru um aukna verðmætasköpun í atvinnugreininni. Til að tryggja réttláta dreifingu hagnaðar af veiðum og vinnslu verða lögð til veiðigjöld og skattur á endanlega sölu veiðileyfa.

„Stjórnarflokkarnir hafa með setningu þessara laga tryggt sjávarútveginum gott og öruggt starfsumhverfi og jafnframt að markaðslögmálin ráði þar ferð. Með þeim hætti geti atvinnuvegurinn staðið að hvað mestri verðmætasköpun, sem væntanlega muni skila sér bæði til atvinnugreinarinnar sjálfrar og þjóðarnúskapsins í heild,“ segir í frétt frá færeyska sjávarútvegsráðuneytinu.

Deila: