Marshallhúsið í nýju hlutverki

Deila:

Ný og glæsileg listamiðstöð var opnuð í Marshallhúsinu á Grandagarði um helgina. Þetta fallega hús var byggt árið 1949, sem hluti af síldarbræðslu, og var starfsemi þar í rúma hálfa öld. Húsið hefur staðið autt undanfarin ár eftir að fiskmjöls og -lýsisvinnsla var aflögð á vegum HB Granda í Reykjavík. Marshallhúsið er nú umgjörðin utan um starfsemi Nýlistasafnsins, Kling & Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar í Reykjavík og Marshall Restaurant + Bar sem verður opnaður á morgun.

Hugmyndina að nýju og breyttu hlutverki Marshallhússins má rekja til arkitektanna sem starfa hjá arkitektastofunni Kurtogpi en stofan sá alfarið um alla arkitektavinnu vegna breytinganna. Tengiliðir við verkefnið af hálfu HB Granda hafa verið þeir Gísli Sigmarsson, tæknistjóri, Sigurður Gunnarsson, umsjónarmaður fasteigna og Össur Imsland frá ASK arkitektum. Að sögn Gísla er Marshallhúsið á fjórum hæðum, samtals 1.839 fermetrar að stærð.

,,Verkefnið hófst formlega 19. febrúar 2016 en þá var skrifað undir samninga og hafist handa við framkvæmdir. Sjálft verkið fól í sér endurbætur og innréttingu á Grandagarði 20 fyrir breytta starfsemi frá því sem áður var. Í byggingunni er veitingastaðurinn Marshall Restaurant + Bar, sem verður opnaður almenningi 22. mars, sýningarsalir og vinnustofur tengdar listum, ásamt stoðkjörnum þeirra. Veitingastaðurinn og barinn eru á jarðhæðinni, sýningarsalir eru á 2. og 3. hæð en vinnustofan á 4. hæð. Í húsinu er lyfta sem hentar jafnt til fólks- og vöruflutninga og gengur frá 1. hæð til 4. hæðar. Aðalinngangur er að norðvestan verðu, frá Járnbraut,“ segir Gísli en hann upplýsir að ÍAV hafi séð um allar verklegar framkvæmdir. Byggingarstjóri hússins, Oddur Oddsson, kemur frá því fyrirtæki.

,,Það má segja að þrátt fyrir opnunina um liðna helgi standi framkvæmdir enn yfir. Verkefnið er þó á loka metrunum. Nokkur smáverkefni eru eftir hjá ÍAV. Við Sigurður höfum setið 41 verkfund vegna framkvæmdanna og líklega eru um tveir til þrír verkfundir eftir. Á þessum fundum eru teknar ákvarðanir um ýmislegt, jafnt stórt sem smátt. Einnig höfum við haft eftirlit með verktökum á framkvæmdatímanum. Það er líka alltaf eitthvað sem við þurfum að sjá um, eins og t.d. stofnlagnir og lóðaframkvæmdir. Þegar unnið er í mörgum verkþáttum þarf að passa að allt gangi upp. T.d eru lagnir fyrir hafnargerð, nýjan frystivélasal í ísturni, spennistöð og skemmu allt í sama skurðinum auk annara stofnlagna sem liggja allt í kringum Marshallhúsið. Þar er verið að tala um vatn, nettengingar og rafmagn,” segir Gísli Sigmarsson.

Þeir listviðburðir, sem nú standa yfir í Marshallhúsinu, eru:

Sýningin Rolling Line en hún spannar rúman áratug af verkum Ólafs Lárussonar (1951-2014). Sýningin er haldin af Nýlistasafninu.

Vinnustofa Ólafs Elíassonar verður að hluta opin almenningi. Þann 18. mars 2017 var opnuð sýning á verkum hans frá því snemma á ferlinum allt til dagsins í dag. Sýnd eru verk af ólíkum toga, þar á meðal innsetningar, skúlptúrar og málverk.

Á 3. hæð í Marshallhúsinu stendur Kling & Bang fyrir sýningunni Slæmur félagsskapur. Sýningin er samsýning átta listamanna sem eru að hasla sér völl á myndlistarsviðinu.

Á myndinni eru: Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason hjá Kurt og pí, Vilhjálmur Viljálmsson forstjóri HB Granda og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

 

Deila: