Blængur landar eftir endurbætur
Frystitogarinn Blængur NK landaði í gær 10.000 kössum af frystum fiski á Akureyri en áður hafði skipið millilandað 1.100 kössum hinn 6. mars. Veiðiferðin hófst 22. febrúar og var hin fyrsta eftir gagngerar endurbætur á skipinu. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og Theodór Haraldsson stýrimann og spurði hvernig túrinn hefði gengið. Þeir sögðu að hann hefði gengið vel og fyrir lægi unnt væri að ná afbragðs árangri á skipinu hvað varðaði veiði. Byrjað var að fiska á Austfjarðamiðum og síðan haldið norður fyrir land og þaðan vestur á Hala. Á Halanum var fín ufsaveiði. Þaðan var haldið suður fyrir land í karfa og þar fékkst góður afli á tveimur sólarhringum. Aflinn í veiðiferðinni var um 450 tonn upp úr sjó og var uppistaða hans ufsi og karfi. Sögðu þeir Bjarni Ólafur og Theodór að unnt hefði verið að fiska mun meira, en eðlilega hefði þurft að lagfæra ýmislegt á vinnsludekkinu og afköstin þar ekki alltaf verið upp á það besta. Nánast hvern einasta dag hafi skipið verið látið reka á meðan aflinn var unninn.
Sögðu þeir félagar að vandamálunum á millidekkinu hefði stórlega fækkað í veiðiferðinni. Fyrst var farið inn til Neskaupstaðar og nokkrar lagfæringar gerðar og eins var ýmislegt lagfært á Akureyri þegar þar var millilandað. Á millidekkinu er mikill og flókinn búnaður sem tekur tíma til að fá að virka eins og menn vilja. Þessa dagana eru starfsmenn Slippsins á Akureyri að sníða síðustu vankantana af búnaðinum og eins er þar Norðmaður sem vinnur við að forrita nýja plastbrettavefju sem er um borð. Þegar vefjan verður komin í gagnið verður hvert bretti plastað á millidekkinu áður en það fer niður í frystilestina.
Þeir Bjarni Ólafur og Theodór sögðu að áhöfninni litist mjög vel á vinnsludekkið og menn hefðu tröllatrú á því að afköst yrðu þar góð í framtíðinni þegar reynslu hefði verið aflað og einstaka agnúar sniðnir af. Þá sögðu þeir einnig að skipið væri afar gott eftir endurbæturnar. Það væri öflugt til veiða og mjög gott sjóskip auk þess sem allur aðbúnaður um borð væri hinn ágætasti.