Vélfag fjölgar starfs­stöðvum á höfuð­borgar­svæðinu

Deila:

„Með fjölgun starfsstöðva okkar erum við í senn að auka þjónustu við viðskiptavini Vélfags og færa þjónustu okkar nær þeim. Þannig styttum við viðbragðstíma þegar viðskiptavinir okkar þurfa á aðstoð að halda,“ segir Ragnar Guðmundsson, sölustjóri Vélfags ehf. en fyrirtækið er að opna nýja þjónustustöð í Hafnarfirði þar sem verður starfsmaður sem annast mun þjónustuverkefni á sunnan- og vestanverðu landinu auk þess sem varahlutalager verður í Hafnarfirði. Þetta er önnur starfsstöðin sem Vélfag opnar á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári en í vor var opnuð söludeild í Urðarhvarfi þaðan sem sölustarfi Vélfags er stýrt.

„Nýjar starfsstöðvar Vélfags eru í takti við umtalsverðan vöxt hjá okkur í starfseminni í heild. Það hefur verið mjög góð sala í okkar tækjabúnaði undanfarna mánuði, bæði hér á landi og erlendis,“ segir Ragnar. Nýja þjónustustöðin í Hafnarfirði verður í húsnæði við Cuxhavengötu við Hafnarfjarðarhöfn en auk starfsstöðvanna tveggja á höfuðborgarsvæðinu eru höfuðstöðvar Vélfags á Akureyri og í Ólafsfirði er framleiðsla og samsetning vélbúnaðarins. Fyrirtækið er því með starfsemi á fjórum stöðum á landinu.

Nánar er fjallað um málið í nýju tölublaði Ægis.

Deila: