Loftslagsbreytingar mesta ógnin við lífríki hafsins

Deila:

„Vonandi á ég eftir að setja mitt mark á þetta starf en flest þeirra verkefna sem við sinnum eru fyrir fram ákveðin og skýr,“ segir Jónas Páll Jónasson sem nýverið tók við starfi sviðsstjóra botnsjávarsviðs Haf rannsóknastofnunar. Hann hefur starfað á sviðinu í góðan áratug, allt frá árinu 2011. Botnsjávarsvið sinnir vöktun og rannsóknum á botnlægum tegundum, þ.á.m. okkar helstu nytjategund, þorskinum og á viðkvæmum flóknum búsvæðum hafsins.

Jónas hefur frá því hann hóf störf á Hafró borið ábyrgð á og sinnt rannsóknum á humri, hörpudiski og sæbjúga. Hann hefur jafnframt tekið að sér ráðgjöf og rannsóknarvinnu á öðrum hryggleysingjum ásamt rannsóknum á bolfiskum. Að auki hefur Jónas haft umsjón með og kennt á stofnmatslínu sjávarútvegsskóla GRÓ- FTP sem hefur aðsetur hjá Hafrannsóknastofnun.

Jónas er fæddur og uppalinn í Reykjavík en á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Jónas lærði fiskifræði við Háskóla Ísland, hann lauk doktorsprófi sínu í þeirri grein árið 2021. „Ég hef lengi verið viðloðandi Hafrannsóknastofnun,“ segir hann en meðal fyrstu verkefna var að taka þátt í rannsókn sem snérist um hrun hörpudisksstofnsins í Breiðafirði upp úr aldamótum. Um áratuga skeið hafði hörpudiskur verið veiddur í Breiðafirði og mikil vinnsla var í Stykkishólmi og Grundarfirði. „Það varð svo algert hrun í stofninum sem setti verulegt strik í reikninginn á þessum svæðum hvað atvinnu varðar, starfsemin  kringum hörpudiskinn skipti verulegu máli, þannig að þetta var mikill skellur þegar stofninn hrundi og hafði víðtæk
áhrif,“ segir Jónas.

Ítarlega er rætt við Jónas í nýju tölublaði Ægis.

Deila: