„Við erum allir mjög ánægðir“

Deila:

„Þetta gekk bara mjög vel og við kláruðum kvótann fyrr en í fyrra. Fórum meira að segja aðeins fram yfir,“ segir Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Guðrúnu Þorkelsdóttur SU, sem er í eigu Eskju á Eskifirði. Eskja var með þrjú skip á makrílveiðum í sumar en auk Guðrúnar voru Aðalsteinn Jónsson SU og Jón Kjartansson SU að eltast við makrílinn.

Bjarni bendir á að í þetta sinn hafi um helmingur aflans komið úr íslenskri lögsögu. Hann segir líka að hráefnið hafi að verið betra en í fyrra. „Þetta var heilt yfir vænni fiskur,“ segir hann. Spurður
hverju það breyti fyrir útgerðina að finna makríl í íslenskri lögsögu segir Bjarni að þar muni mestu um þann tíma sem fer í siglingar og olíukostnað. Tíminn nýtist þannig betur þegar fiskurinn sé nær landinu. „Þá fer ekki allur tíminn í siglingar,“ áréttar hann og bætir við að fiskveiðiárið hafi gengið mjög vel. „Við erum allir mjög ánægðir.“

Rætt er við fleiri skipstjóra um nýliðið fiskveiðiár í nýju tölublaði Ægis.

Deila: