Fjölskrúðugur fiskmarkaður á Balí

Deila:

Fiskmarkaðurinn í Jimbaran á Balí er að öllu leyti ólíkur íslenskum fiskmörkuðum. Í fyrsta lagi eru þar nær eingöngu fisktegundir sem ekki þekkjast á Íslandi, enda veiddar úr hlýjum sjó undan strönd Bali í Indlandshafi, að mestu leyti af smáum dagróðrabátum, sem sömuleiðis eru að flest öllu leyti frábrugðnir íslenskum fiskibátum. Ís eða önnur kæling kemur fremur lítið við sögu og sjór er sóttur í fjöruna og borinn á handafli inn á markaðinn til að hella yfir fiskinn til að halda honum ferskum. Hitastigið inni á markaðnum er svipað og fyrir utan eða nálægt 30 stigum og sjórinn í kringum 20 gráðurnar.

Hlýsjávarrækja er litlaus þar til hún hefur verið elduð. Þá verður hún rauð og falleg.

Markaðurinn er til húsa í hrörlegri byggingu og ytra umhverfi er ekki snyrtilegt. Fiskurinn er ekki boðinn upp eins og tíðkast á íslenskum mörkuðum, engin rafræn sala. Allt staðgreitt í hundruðum eða milljónum indónesískra rúpía. Ein milljón rúpía svarar til ríflega 8.000 króna. Verðið er afar lágt á íslenskan mælikvarða.

Dagróðrabátarnir.

Allt sem er til sölu er til sýnis inni á markaðnum og þangað kemur fólk til að kaupa sér í matinn, ýmist til að taka með sér heim eða láta matreiða fyrir sig að hætti heimamanna á litlum veitingahúsum við hlið markaðsins og er helsta eldunaráhaldið funheitt kolagrill undir berum himni. Veitingahús kaupa svo fiskmeti sitt á markaðnum. Yfirleitt er það afli dagsins sem er til sölu, en eitthvað fer yfir á annan eða aðra daga.

Hlýsjávarhumarinn er fallegur.

Inni á markaðnum er ys og þys og fisktegundirnar skipta tugum að minnsta kosti. Allt frá rækju upp í túnfisk, flestar okkur Íslendingum svo framandi að líklega eigum við ekki einu sinni nöfn yfir þær. Litadýrðin er líka einstök og stærðin allt frá fingurstærð upp í metra eða meira. Túnfiskurinn er stærstur en minnst eru einhverskonar síli, varla munnbiti að stærð.

En sjón er sögu ríkari og við látum myndirnar tala. Þær tók Hjörtur Gíslason.

Fallegir fiskar.

Við köllum þennan kjaftask.

Falleg hörpuskel.

Líklega er þetta tannfiskur.

Og svo er komið að grillinu. Þarna geta gestir og gangandi farið með fiskmetið af markaðnum og fengið grillað og setið fyrir utan og gætt sér á því, kannski með einum bintang bjór.

Deila: