Fjórðungi uppsjávarfisks landað í Neskaupstað

Deila:

Neskaupstaður ber en eitt árið höfuð og herðar yfir aðrar hafnir landsins þegar horft er til þeirra hafna þar sem mestum uppsjávarafla er landað. Á síðasta ári var landað þar rúmum 163 þúsund tonnum. Hlutur Neskaupstaðar í löndun á síðasta ári er 24,6%. Það er reyndar nokkuð mikill samdráttur milli ára í tonnum en 2015 var landað rúmum 200 þúsund tonnum af uppsjávarafla á Neskaupstað en hlutur hafnarinnar var þá 19,9%. Þetta kemur fram í samantekt Fiskistofu.

Sú höfn sem kemur næst er Vestmannaeyjar með tæp 110 þúsund tonn eða 16,6% af heildar uppsjávarafla sem landað var í íslenskar hafnir á síðasta ári.

Landanir á uppsjávarafla undanfarin ár hafa færst í auknum mæli til Austfjarða. Árið 1993 var 42% af öllum uppsjávarafla landað á Austurlandi en hlutfallið hefur síðan vaxið nokkuð jafnt og þétt og í fyrra var hlutfallið komið upp í 70% sem er lítilsháttar aukning frá fyrra ári (sjá mynd). Suðurland er sem áður í öðru sæti með 16,6% af lönduðum afla og kom hann á land nánast eingöngu í Vestmannaeyjahöfn.

Þegar horft er til löndunar á helstu tegundum uppsjávarfisks eftir höfnum þá var mestu landað af loðnu á Neskaupstað eða rúmlega 37 þúsund tonnum, sem eru 29% af allri landaðri loðnu hér á landi. Næst kemur Vestmannaeyjar með tæp 35 þúsund tonn eða 27%.

Neskaupstaður er einnig með stærstan hluta af þeirri síld sem lönduð var hér á landi eða 27,4% (36 þúsund tonn) en Vestmannaeyjar koma næst með 18,5% og Hornafjörður með 11,4%.

Það kemur heldur ekki á óvart að Neskaupstaður trónir einnig á toppnum þegar horft er til löndunar á makríl en í Neskaupstað var landað 42.647 tonnum í fyrra eða 23,3% af makríl sem lönduð var í íslenskum höfnum. Skammt á eftir koma Vestmannaeyjar með 33.022 tonn (18,0%) og Vopnafjörður með 22.620 tonn (12,4 %).

107.000 tonn af erlendum skipum

Erlend skip lönduðu alls 107.165 tonnum af uppsjávarfiski í íslenskum höfnum á síðasta ári. Það sem er fréttnæmt er að Neskaupstaður er ekki helsta löndunarhöfn erlendra uppsjávar-veiðiskipa heldur Fáskrúðsfjörður. Alls lönduðu erlend veiðiskip og þá aðallega norsk loðnuveiðiskip 47.980 tonn á Fáskrúðsfirði en næst kom Neskaupstaður með 16.358 tonn. Þess má geta að Austfirðir eru með 68,9% af hlutdeild landaðs uppsjávarafla erlendra skipa.

Löndun uppsjávarfisk á Austurlandi

 

 

Nánar má sjá skiptingu á lönduðum uppsjávarafla eftir höfnum hér (bæði magn og hlutfallstölur )

 

Deila: