Bann við veiðum á ígulkerjum

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt reglugerð nr 1086/2017 um bann við veiðum á ígulkerjum á austursvæði í innanverðum Breiðafirði.  Bannið tekur gildi frá og með deginum í dag, föstudeginum 15. desember nk. Heildarkvóti fyrir ígulker er 250 tonn, þar af 100 tonn á Austursvæðinu.

Ígulkeraveiðar hófust árið 1993. Langmest var veitt í Breiðafirði. Á árunum 1997–2003 lögðust veiðarnar að mestu af. Þótt samdráttur í afla skýrist að verulegu leyti af versnandi markaðsaðstæðum, létu mörg bestu veiðisvæðin verulega á sjá eftir veiðarnar. Veiðar á ígulkerum hófust að nýju í Breiðafirði árið 2004.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarsjónarmið að afli fiskveiðiárið 2017/2018 verði ekki meiri en 250 tonn innan svæðis í innanverðum Breiðafirði sem markast suður og austur frá punkti 65°10´N og 22°40´V. Jafnframt er lagt til að innan þessa svæðis verði dregin lína (milli 65°08´N, 22°31´V og 65°04´N, 22°25´V) til skiptingar svæðinu og aflamark vestan hennar verði 150 tonn og austan hennar 100 tonn.

Stofnstærðarmat, framkvæmt í september 2015 og apríl 2016 í innanverðum Breiðafirði, bendir til að 2500–3000 tonn af ígulkerum séu á svæðunum. Í ljósi varúðarsjónarmiða miðast ráðgjöf við 10% af lægra gildi þessa mats.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: