Tveir nýir „grænir“ togarar

Deila:

Norsku útgerðarfélögin Havfisk og Olympic hafa bæði skrifað undir samninga um smíði nýrra togara. Við smíði þeirra verður nýtt nýjasta tækni í umhverfisvænni útgerð samkvæmt vefsíðu samtaka norskra útvegsmanna.

Havfisk hefur samið við skipasmíðastöðina Vard um smíði skuttogara og er verðið á honum um 5 milljarðar íslenskra króna. Um er að ræða hönnun sem byggð er á sama grunni og á togaranum Havtind, sem útgerðin fékk afhentan frá Vard í janúar.

Togarinn verður sá fyrst sem búinn er orkukerfi sem gefur möguleika á bæði keyrslu á rafmagni, olíu og hvoru tveggja í senn. Það leiðir til minni sótspora og dregur úr hávaða.

Olympic  lætur smíða togara sem bæði verður búinn til veiða á rækju og botnfiski og mun hann koma í stað togarans Nordøytrål. Skipið verður smíðað í Tyrklandi og skal afhendast árið 2020. I því verður búnaður frá norskum fyrirtækjum að verðmæti 1,9 milljarðar króna. Togarinn verður 70 metra langur og búinn nýjustu tækni í samnýtingu rafmagns og olíu til keyrslu. Með því verða sótspor skipsins með minnsta móti.

Deila: