Misjafnt verð á steinbítnum

Deila:

Það getur vakið undrun vegfarenda þegar gengið er um bryggjur þorpanna í blíðskaparveðri að enginn virðist vera á sjó. Hvernig stendur á þessu? Fiskast ekkert? BB fór á stúfana og spurði Birki Jónas Einarsson, skipstjóra á Blossa á Flateyri hvernig steinbítsvertíðin væri búin að ganga og af hverju hann væri staddur í landi.

„Það hefur verið góð veiði miðað við mörg önnur ár en verðið fyrir fiskinn er frekar glatað,“ segir Birkir. „Núna í apríl veiðist bara steinbítur því þorskurinn liggur á meltunni eftir loðnu át. Hann fer svo að veiðast aftur í maí. En verðið á steinbítnum rokkar mikið milli daga. Það getur allra hæst farið upp í 120 kr. á kílóið fyrir slægðan steinbít en er yfirleitt á verðbilinu 40-100 kr. Fyrir óslægðan steinbít fást svo 50-60 krónur á kílóið en hefur farið niður í 5 krónur á kílóið á fiskmarkaði. Við þurfum svo að borga auðlindagjald, sem er alltof hátt miðað við fiskverð nú.“

Það fylgir því ekki mikið tekjuöryggi að vera trillusjómaður og Birkir segir að jafnvel þó að tekjurnar hafi verið í lagi í marsmánuði þá sé hann hreinlega kominn í aukavinnu í landi núna. Birkir hefur verið skipstjóri síðan árið 1999 og þetta er í fyrsta skipti sem hann vinnur í landi ásamt því að vera á sjó. Hann segir jafnframt að hann vilji gjarnan vera á sjó en þegar tekjurnar séu orðnar þetta lágar þá gefist menn á endanum upp. „Það er líka erfitt þegar stjórnvöld hafa ekki skilning á þessari atvinnugrein og endalaust hægt að bæta við kostnaði á útgerðir. Laun sjómanna lækka líka þegar fiskverðið er svona lágt. Það er ekki endalaust hægt að taka við tekjulækkunum. En maður vonar að það komi betri tímar,“ segir Birkir að lokum. En þegar BB innir hann eftir því hvernig hann sjái framtíðina fyrir sér þá svarar þessi glaðhlakkalegi sjómaður hlæjandi og bjartsýnn: „Ég er í námi núna, svarar það spurningunni þinni?“

Frétt af bb.is

 

Deila: