Höfrungur III með mestan kvóta í Barentshafi

Deila:

Þorskkvóti Íslands innan lögsögu Noregs í Barentshafi á þessu ári verður 5.290 tonn, sem er tæplega 700 tonnum minna en í fyrra.  Aflinn í fyrra varð 5.962 tonn auk meðafla í ýsu og öðrum tegundum. Mesta úthlutun að þessu sinni fær Höfrungur III AK, 948 tonn.

Miklar breytinga hafa orðið á síðustu árum á því hvaða skip HB Granda fá úthlutað heimildum til þorskveiða í Barentshafi vegna breytinga á skipastól félagsins. Þerney var til dæmis öflugust þeirra við veiðar í Barentshafinu í hitteðfyrra með 1.556 tonn. Hún er ekki lengur í flota HB Granda. Í fyrra var það svo Örfirisey sem tók þorskheimildir HB Granda innan lögsögu Noregs í Barentshafinu, 1.162 tonn, og nú virðist Höfrungur vera næstur.

Næstmestan kvóta á þessum slóðum fær Sólberg ÓF, 873 tonn og í þriðja sætinu er Arnar HU með 646 og síðan Björgvin EA með 636 tonn. Alls fá 15 skip úthlutað þessum aflaheimildum nú, en 19 í fyrra. Veiðarnar stunduðu hins vegar aðeins sjö skip í fyrra eftir miklar tilfærslur milli skipa. Sólberg ÓF varð aflahæst þeirra með 1.361 tonn. Örfirisey kom næst með 1.162 tonn og í þriðja sætinu varð Kaldbakur EA með 1.043 tonn. Þar fast á eftir kom svo Kleifabergið með 963 tonn.

Heimildum til veiða á þorski til veiða innan lögsögu Rússa í Barentshafi hefur enn ekki verið úthlutað. En í fyrra máttu íslensk skip veiða þar 3.736 tonn. Aflinn þá varð 3.112 tonn tonn. Þrjú skip stunduðu veiðar þar þá. Kleifaberg RE var með 1.382 tonn, Blængur NK með 1.238 tonn og Arnar HU með 592 tonn.

Deila: