Bleikjueldi bætt við að Öxnalæk

Deila:

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að breytingu á rekstrarleyfi Landeldi hf. vegna fiskeldis á landi við Öxnalæk í Ölfusi. Um er að ræða breytingu þar sem bleikju er bætt við sem eldistegund, hámarkslífmassi miðast við 100 tonn.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 8. desember 2022.

Á gildistíma leyfisins skal fara fram vöktun og rannsóknir af hálfu rekstrarleyfishafa til að meta vistfræðileg áhrif á nánasta umhverfi eldisstöðvarinnar.

Varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi vegna eldis eða flutnings á fiski skulu vera skráðar og aðgengilegar hjá eldisaðila, og áætlun um aðgerðir til að endurheimta fisk sem sleppur. Leyfishafi skal sjá til þess að viðbragðsáætlun vegna slysasleppinga sé staðsett á eldissvæðinu og kynna starfsmönnum hana. Rekstrarleyfishafi sem missir fisk úr fiskeldisstöð, skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Fiskistofu, Matvælastofnunar, sveitafélaga og næstu veiðifélaga. Rekstrarleyfishafi ber skyldu til að halda skrá yfir uppruna eldislaxa sem byggir á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna.

Leyfið er bundið við ofanskráða kennitölu, starfsemi og ræktunarsvæði. Leyfishafi skal uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar í lögum og reglugerðum. Óheimilt er að hefja aðra starfsemi en leyfið nær til, nema að fengnu samþykki Matvælastofnunar.

Gildistaka rekstrarleyfis þessa er háð því að leyfi til framkvæmda sé til staðar. Einnig þarf nýtingarleyfi Orkustofnunar. Gildistaka rekstrarleyfis fiskeldisstöðva á landi er háð úttekt Matvælastofnunar og því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur. Leyfi þetta er gefið út skv. reglugerð nr. 462/2021 (sem innleiðir reglugerð nr. 2016/429) um smitandi dýrasjúkdóma, með síðari breytingum og ber rekstrarleyfishafa að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar.

Rekstrarleyfið er háð skilyrðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerða og annarra stjórnvaldsreglna, sem kunna að verða settar á grundvelli laganna, sem og þeim breytingum sem kunna að vera gerðar á lögum og reglugerðum.

Deila: