Bjóða skipstjórnarnám eftir áramót
Menntaskólinn á Ísafirði ráðleggur að fara af stað með nýjan hóp í skipstjórnarnámi í janúar ef næg þátttaka fæst. Í boði er að taka A-stigs skipstjórnarréttindi sem gefur réttindi til að gegna stöðu skipstjóra eða stýrimanns á skipum styttri en 24 metrar að lengd og undirstýrimanns á skipum að 45 metrum að loknum tilskyldum siglingatíma. Í framhaldinu býður Menntaskólinn upp á skipstjórnarréttindi B.
Námið er kennt í samvinnu við Tækniskólann. Flest allir áfangar eru kenndir í Menntaskólanum og eru kennarar þeir Guðbjörn Sölvason og Hjalti Már Magnússon. Áfangar sem krefjast sérútbúins tækjabúnaðar eru kenndir í Tækniskólanum.
Skipstjórnarnámið hefur verið vinsælt undanfarin ár í skólanum. Margir nemendur hafa farið í raunfærnimat hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í skipstjórnargreinum og hafa með því geta fengið áfanga í náminu metna út á reynslu sína í sjómennsku. Skipstjórnarnámið er sniðið að fólki í vinnu og fer fram í svokölluðu dreifnámi sem er bland af fjarnámi og staðnámi. Nemendur mæta þannig í nokkrar lotur yfir önnina en eru síðan í fjarnámi þess á milli. Að sögn Heiðrúnar Tryggvadóttur áfangastjóra er mikil ásókn í slíkt námsfyrirkomulag hjá fullorðnu fólki. Auk skipstjórnarnámsins er í boði húsasmíða- og sjúkraliðanám með sama fyrirkomulagi og vonir skólans standa til að á næstu misserum verði enn hægt að auka námsframboðið í dreifnámi.
Áhugasamir geta haft samband við skólann og fengið frekari upplýsingar. Hægt er að sækja um námið á heimasíðu skólans, www.misa.is til 30. nóvember.
Frétt af bb.is