Vaxandi framleiðslu mjöls og lýsis að vænta

Deila:

Framleiðsla á fiskimjöli í heiminum gæti orðið meira en 5 milljónir tonna á þessu ári, samkvæmt samtökum framleiðenda á fiskimjöli, IFFO. Síðasta árs verður líklega á hinn bóginn minnst sem eins versta ársins til langs tíma vegna hlýsjávarstraumsins El Nino, sem varð fyrst vart árið 2014 og stendur enn.

El Nino er sjávarstraumur sem gengur inn á fiskimiðin við Síle og Perú og hrekur ansjósu burt af hefðbundnum miðum, þar sem henni hentar betur kaldari sjór.

Minni veiðiheimildir í Perú og Síle eru helsta orsökin á minni framleiðslu í fyrra. Jafnframt var samdráttur á flestum veiðisvæðum fyrir uppsjávarfisk til bræðslu. Þessi samdráttur bitnaði ekki síður á framleiðslu lýsis, sem dregist hefur saman um allan heim nema í Bandaríkjunum.

Þetta ár lítur betur út, þar sem spáð er yfir 5 milljóna tonna framleiðslu af mjöli og 900.000 tonnum af lýsi. IFFO telur að veiddar verði 2,5 milljónir tonna af ansjósu á fyrstu vertíð ársins á norður- og miðsvæðinu í Suður-Ameríku og 2 milljónir tonna á næstu vertíð á sama svæði. Gert er ráð fyrir að áhrif El Nino verði horfin að loknum aprílmánuði.

Auknar veiðiheimildir í Evrópu og meiri framleiðsla í Síle samfara stöðugum afla við Bandaríkin og Suður-Afríku munu leiða til meiri framleiðslu.  Reyndar hafa notendur fiskimjöls og lýsis lagað sig að minna framboði síðustu ára og hefur það áhrif á eftirspurnina.

Fiskeldi er stærsti kaupandi fiskimjöls og lýsis, en nokkrar breytingar hafa þó orðið milli áranna 2014 og 2015.

Í Perú er búist við góðri veiði á ný þegar áhrifa El Nino gætir ekki lengur, en seinni vertíð síðasta árs var gjöful. Jafnvel er búist við að kvóti fyrir næstu vertíð í Perú verði allt að 3 milljónir tonna.

Deila: