Stendur við fyrri fullyrðingar

Deila:

„Ég var nú búinn að óska eftir því í mörg ár að fá fund hér. Það eru sex og hálft ár síðan ég kom hingað síðast inn þannig að það var ágætt að nota tækifærið til að koma sjónarmiðum á framfæri,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri útgerðarfélagsins Samherja í samtali á fréttavefnum ruv.is.

Þorsteinn fundaði með bankaráði Seðlabankans í gær. Tilefnið var að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur beðið bankaráðið um skýrslu vegna framgöngu Seðlabankans sem taldi Samherja hafa brotið gjaldeyrislög. Hæstiréttur dæmdi fyrr í mánuðinum að Seðlabankanum hafi verið óheimilt að leggja 15 milljóna króna stjórnvaldssekt á fyrirtækið.

Þorsteinn Már segist virða ákvörðun forsætisráðherra að fá bankaráið, frekar en óháðan aðila til að vinna greinargerð um málið. „Ég virði ákvörðun forsætisráðherra hvað þetta varðar og að sjálfsögðu mun ég bara bíða eftir þessari skýrslu. Ég hef ekki aðgang að þessari vinnu að öðru leyti en því að mér gefst tækifæri á að koma mínum sjónarmiðum á framfæri,“ segir Þorsteinn í samtali við RÚV.

Þorsteinn stendur við fyrri fullyrðingar sínar um að Már Guðmundsson eigi að víkja úr embætti seðlabankastjóra vegna málsins. „Ég stend við fyrri orð mín hvað það varðar,” segir Þorsteinn og segist jafnframt ekki ætla að tjá sig frekar fyrr en bankaráðið er búið að birta skýrslu sína.

 

Deila: