Hrun í aflaverðmæti á strandveiðum

Deila:

Verð á helstu fisktegundum á strandveiðum hefur lækkað verulega síðustu árin, Á það við um þorsk, ýsu, ufsa og karfa. Verðlækkunin þýðir minni tekjur þrátt fyrir aukinn afla og hefur sóknin eitthvað minnkað af þessum sökum. Þetta má lesa úr skýrslu um strandveiðar sem Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri  vann fyrir Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið.

Aflaverðmæti sem skilar sér í hverjum túr er grundvöllur þess að veiðarnar beri sig. Þegar skoðuð er þróun heildaraflaverðmæta greinarinnar og fjórar helstu fisktegundir sem veiddar eru innan kerfisins, kemur í ljós að eftir stöðugan vöxt í aflaverðmætum á árunum 2009-2012 kemst á ákveðinn stöðugleiki á árunum 2013-2016 (tafla 13). Verðmætin jukust fyrst eftir að strandveiðikerfinu var komið á, vegna hækkandi verðs sem fékkst  fyrir þorsk og ufsa en einnig vegna aukinna heimilda sem veitt var í kerfið. Heildaraflaverðmæti breytist lítið á tímabilinu 2013-2016 þrátt fyrir að aflaheimildir hafi verið auknar árið 2016.

Strandveiðar fiskverð 1 skýrsla

Tölur frá 2017 eru gróflega áætlaðar og gætu breyst þegar öllum gögnum um árið hefur verið skilað inn en bráðabirgðatölur 2017 sýna hrun í aflaverðmætum þrátt fyrir 8% aukningu aflaheimilda. Þorskurinn var samanlagt um 96,5% af öllum verðmætunum árin 2016-2017 samanborið við rúmlega 90% 2009-2015. Mestu munar um verðhrun á ufsa en heildaraflaverðmæti ufsa lækkaði um rúmlega 80% frá 2010 þegar daglega hámarkið var fyrst bundið við þorskígildi.

Meðalverð á fjórum helstu tegundum sem aflað er á strandveiðum fæst með því að deila heildar aflaverðmætum tegundanna í heildarafla hvert ár (mynd 9). Í ljós kemur að verð fyrir allar tegundir hefur lækkað frá 2015 og sérstaklega á tveimur mest veiddu tegundunum, þorski og ufsa.

Strandveiðar fiskverð 2 skýrsla

Verð fyrir hvert kíló upp úr sjó sýnir ekki hversu verðmætur fiskurinn er í raun og veru fyrir strandveiðisjómenn. Í raun má segja að ef verð á karfa, ufsa og ýsu er lægra en reiknað þorskígildi segir til um, þá er lítill hvati fyrir sjómenn að skila inn þeirri fisktegund þar sem hún skerðir mögulegan þorskafla (mynd 10).

Strandveiðar fiskverð 3 kýrsla

Fyrstu þrjú ár strandveiðanna helst verðmæti áðurgreindra tegunda nokkuð í hendur við þorskinn en upp úr árinu 2013, og sérstaklega eftir árið 2015, fer verðmæti ufsa hratt lækkandi samanborið við þorsk (mynd 9). Eftir árið 2015 þegar afurðaverð á ufsa byrjaði að lækka breyttist þorskígildisstuðull ufsans ekki í samræmi við lækkun afurðaverðs. Eftir því sem bilið á milli meðalþorskverðs og umreiknaðs þorskígildisverðs á ufsa hefur breikkað, hefur ufsaafli minnkað talsvert á öllum svæðum strandveiðanna.

Deila: