3,8 milljarða hagnaður á þriðja fjórðungi

Deila:

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim seldi fisk fyrir ígildi 17,4 millj­óna króna á þriðja árs­fjórðungi þessa árs. Félagið hagnaðist um 3,8 milljarða króna. Eignir félagsins nema um 150 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Brims. Þar er haft eftir forstjóranum, Guðmundi Kristjánssyni:

„Afkoma fjórðungsins er sambærileg því sem var í fyrra og sýnir hve mikilvægt er að vera með fjölbreyttan rekstur. Það er óvissa í Evrópu núna vegna stríðs og verðbólgu. Erfitt er að spá um hvað gerist á okkar afurðamörkuðum á næstu mánuðum en það styrkir Brim að vera með margar tegundir afurða eins og sést á þessum ársfjórðungi þar sem verð á lýsi og mjöli voru góð. Sterkt og gott sölunet styrkir alla þætti starfseminnar á tímum eins og núna. Efnahagur félagsins er traustur og eiginfjárstaðan góð. En það er líka óvissa á Íslandi en óvissuna má minnka ef atvinnulífið, bæði atvinnurekendur og verkalýðsfélög, hefja strax málefnalegt og skynsamlegt samtal við stjórnvöld um hvernig við ætlum að ná niður verðbólgunni.“

Í tilkynningunni segir að makrílveiðar hafi gengið vel í sumar en skipin Venus, Víkingur og Svanur voru með ríflega 26 þúsund tonn af makríl, sem landað var á Vopnafirði. Einnig hafi bolfiskveiðar og vinnsla gengið vel á þessum tíma.

Deila: