Skrifar um ”skaðræði kvótakerfisins“

Deila:
„Fiskveiðiárið 2021/22 var meðalverð þorsks frá strandveiðum 337 kr/kg, en 271 kr/kg frá skuttogurum, munur upp á 24%. Þessi verðmunur endurspeglar það að krafan á alþjóðlegum mörkuðum um vistvænar og félagslega ábyrgar vörur verða æ háværari með hverju ári. Erlendir stórmarkaðir eru í auknum mæli farnir að merkja fiskinn sem þeir selja út frá veiðarfærum þar sem þorskur veiddur á krók er að öllu jöfnu verðmætari en sá sem veiddur er í troll. Það er erfitt að sjá hvernig það geti á nokkurn hátt verið þjóðhagslega hagkvæmara að fá lægra verð fyrir útflutningsvöru heldur en hærra.“
Þetta er á meðal þess sem Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, skrifar í grein sem birtist í Bændablaðinu. Í greininni segir Kjartan Páll að kvótakerfið hafi hreinlega stuðlað að útrýmingarhættu. Humarveiðar séu bannaðar vegna kvótasetningar, veiði á úthafsrækju hafi dregist saman um 90% frá 1994 og sandkoli um 95% eftir að hann var kvótasettur. Ráðgjöf í löngu hafi dregist saman um 60% frá 2015 og keilu um 70% frá 2011. Hann segir að þumalputtareglan virðist vera sú að þegar tegund sé kvótasett þá hrynji stofninn. Vistfræðilegur árangur af kvótakerfinu hafi þannig í besta falli verið minni en enginn og í versta falli stórskaðlegur.
„Sníkjulífi sægreifanna á íslensku þjóðinni og auðlind hennar er viðhaldið af kvótakerfinu í núverandi mynd. Það er löngu orðið tímabært að stokka upp. Framtíð hafs og þjóðar er í húfi,“ skrifar Kjartan Páll.

Deila: