Góð aflabrögð á heimamiðum

Deila:

Ísfisktogarar HB Granda hafa ekkert þurft að sækja á Vestfjarðamið frá því að sjómannaverkfalli lauk. Helgast það af góðum aflabrögðum á heimamiðum togaranna fyrir sunnan og vestan við Reykjanes.

Eiríkur Jónsson skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni

,,Við erum núna á Selvogsbankanum á höttunum eftir ufsa. Hér var góð ufsaveiði sl. tvo sólarhringa en svo virðist sem að ufsinn sé gufaður upp í augnablikinu og það hefur verið rólegt yfir veiðinni í dag. Þetta er stórufsi, sem hér hefur verið á ferðinni, og það má vera að hann styggist frekar en smærri fiskurinn þegar togað er,“ sagði Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK, er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda síðdegis á föstudag.

Að sögn Eiríks hafa aflabrögðin verið góð frá verkfalli og fín veiði hefur verið á Eldeyjarbankanum að undanförnu.

,,Við ákváðum að byrja hér á Selvogsbankanum en ég heyri það frá skipstjórum togara á Eldeyjarbankanum að þar sé enn góð veiði. Menn fá þar þorsk, gullkarfa og ufsa og góð þorskveiði hér syðra þýðir að við höfum ekki þurft að hafa fyrir því að sækja þorskinn norður á Vestfjarðamið. Tíðarfarið hefur sömuleiðis verið allt annað og betra en við höfum oft átt að venjast á þessum árstíma og það hjálpar til,“ sagði Eiríkur Jónsson.
 

 

Deila: