G.Run hefur notkun á FleXicut við karfavinnslu

Deila:

Marel og sjávarútvegsfyrirtækið Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði hafa undirritað samning sem felur í sér kaup á búnaði til fiskvinnslu.

Guðmundur Runólfsson hf, betur þekkt sem G.Run, stækkar og endurbætir fiskvinnslu fyrirtækisins til muna en byggt verður nýtt tvö þúsund fermetra hús við gömlu vinnsluna. Í vinnslunni verða tvær FleXicut vatnsskurðarvélar, FleXitrim snyrtilína og tvær pökkunarlínur en stefnt er að því að taka nýja búnaðinn í notkun seint á árinu 2018.

Samningur þessa efnis var undirritaður þann 9 júní s.l. og hélt G.Run golfmót í tilefni dagsins. Þann 10. júní tók hópur barna á Grundarfirði fyrstu skóflustunguna að nýju vinnslunni en það var liður í hátíðarhöldum bæjarins vegna sjómannadagsins.

marel_grun_3

„Í húsinu verður annars vegar vinnslulína fyrir þorsk og annan bolfisk og hins vegar sér vinnslulína fyrir karfa og verða þær keyrðar báðar í einu,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson framkvæmdastjóri G.Run.

Þetta er tímamóta sala fyrir Marel því þetta er í fyrsta sinn sem FleXicut er seld til karfavinnslu. FleXicut fjarlægir beingarð og framkvæmir bitaskurð eftir óskum um loka afurð, s.s. hnakkastykki, þunnildi, miðstykki og sporð stykki, og afurðadreifikerfið flokkar svo allt að 8 ólíkar afurðir í einu.

„Í dag vinnum við 20 tonn af hráefni á dag en þegar nýja vinnslan verður komin í gang verða 30 til 35 tonn keyrð í gegn á degi – án þess að bæta við mannskap við vinnsluna“ segir Guðmundur. Smári. „Við erum einnig ánægð með að FleXicut línan eykur hávirðishlutfall vörunnar sem skapar aukin verðmæti fyrir okkur.“

FleXicut kerfi hafa nú verið sett upp í fiskvinnslum víða um land og þar að auki í Evrópu og Norður-Ameríku og árangurinn lætur ekki á sér standa. Vinnslurnar bera búnaðinum vel söguna og segja hann auka skilvirkni, gæði afurða og það vöruúrval sem þeir geta boðið viðskiptavinum sínum.

 

Deila: