„Til að hægt sé að ræða um fiskveiðistjórnun með skynsömum hætti“

Deila:

„Óli Samró kemst að þeirri niðurstöðu í bókinni að hvergi sé til fiskveiðistjórnunarkerfi sem gerir ekkert rangt og allt rétt, en að kerfi eins og það íslenska og nýsjálenska komist næst því að stýra fiskveiðunum með hvað skynsamlegustum hætti,“ segir Hjörtur Gíslason. Hjörtur er blaðamaður, ritstjóri Kvótans.is og þýðandi nýrrar bókar eftir færeyska sjávarútvegsráðgjafann og hagfræðinginn Óla Samró. Viðskiptamogginn ræddi við Hjört um bókin og fiskveiðistjórnun og fer umfjöllunin hér á eftir.

Á íslensku er titill bókarinnar Fiskveiðar: fjölbreyttar áskoranir, og fjallar Óli þar meðal annars um þær ólíku leiðir sem farnar eru við stjórnun fiskveiða víða um heim. „Hann fer m.a. stuttlega yfir sögu fiskveiðistjórnunar með viðkomu í löndum á borð við Noreg og Færeyjar sem búa að gömlum lögum um fiskveiðar, útþenslu fiskveiðilögsögu og landhelgi þjóða, og setningu kvótakerfisins 1984 á Íslandi, og fljótlega þar á eftir á Nýja-Sjálandi. Óli kortleggur síðan allar þær leiðir sem notaðar eru til að stýra fiskveiðum. Fjallar bókin um nær allar helstu fiskveiðiþjóðir heims, nema að Kína og Rússland eru undanskilin því erfitt er að fá frá þeim áreiðanlegar upplýsingar um fyrirkomulag fiskveiða,“ segir Hjörtur.

Sóknar- eða kvótastýring

Það var Óli sem hafði frumkvæðið að því að fá Hjört til að þýða bókina. „Hann var að leita að þýðanda og hafði verið bent á mig. Vildi svo til að fyrir 40 árum starfaði ég sem þjálfari í handbolta og knattspyrnu og var fenginn til að stýra liði í Færeyjum í tæp tvö ár. Þeir skildu ekki íslenskuna mína og vildu ekki tala við mig dönsku, svo ég neyddist til að læra færeysku, sem ég hef haldið við með nokkuð tíðum ferðum til eyjanna og lestri til ánægju og yndisauka,“ segir Hjörtur.

Í bókinni skiptir Óli fiskveiðistjórnunarkerfum í tvo meginflokka: „Annars vegar er beitt sóknarstýringu og hins vegar kvótastýringu. Fyrri leiðin felur í sér að stýra þeirri orku sem fer í veiðarnar, þ.e. veiðigetunni, en sú síðari snýst um að stjórna því hversu mikið magn er leyfilegt að veiða.“ Má síðan skipta hverri meginleið í nokkra undirflokka: „Kvótakerfin geta t.d. verið byggð þannig upp að ákveðinn er heildarkvóti sem skipin keppast um að veiða, að hvert skip fái framseljanlegan kvóta, eða að kvótinn sé algjörlega framseljanlegur án nokkurra hafta,“ útskýrir Hjörtur.

„Í sóknarstýringu eru farnar þær meginleiðir að takmarka fjölda eða veiðigetu skipanna, eða út- hlutaður ákveðinn dagafjöldi til veiða.“ Kerfin hafa sína kosti og galla og bendir Hjörtur t.d. á að í sóknarstýringu sem byggist á takmörkun á fjölda eða veiðigetu skipa séu oft lítil tækifæri fyrir nýliða að koma inn í greinina. „Stjórnmál ráða líka alltaf ferðinni upp að vissu marki, og ekki til neitt kerfi sem byggir 100% á hagkvæmnisjónarmiðum eða 100% á ráðleggingum fiskifræðinga. Er byggðapólitík áberandi á mörgum stöðum og veiðiheimildir þá bundnar löndunarskyldu í ákveðnum höfnum, eða miklar varnir gegn erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Á það t.d. við í Japan og víðast hvar í Evrópusambandinu.“

Á sumum stöðum eru jafnvel engar veiðar stundaðar af heimamönnum, þó nóg sé af fiski í sjónum. „Það á t.d. við á Falklandseyjum þar sem allar veiðiheimildir eru leigðar til útlendinga. Falklandseyjabúar stunda engan sjávarútveg sjálfir en hafa miklar tekjur af því að leigja frá sér kvótann. Þar búa um 3.000 manns en aðeins 25 sem vinna við sjávarútveg, og helsta atvinnugrein landsmanna er sauðfjárbúskapur,“ segir Hjörtur.

Uppboðsleiðin verið reynd áður

Mikið hefur verið til umræðu í íslenskum stjórnmálum að reyna að fara svokallaða uppboðsleið, þar sem allur kvótinn eða hluti hans væri seldur hæstbjóðanda í reglulegum uppboðum. Í bókinni nefnir Óli Samró tvö dæmi þar sem reynt var að selja kvótann á uppboði. „Í Lettlandi og í Kamchatka í Rússlandi var sú leið prófuð, og í báðum tilvikum var upp boðstilraununum hætt því ávinningurinn var ekki sá sem vonast hafði verið eftir. Í Rússlandi keyptu Kínverjar allan kvótann sem var í boði og í Lettlandi voru það Íslendingar.“

Hjörtur segir vandasamt að innleiða uppboðskerfi á fiskveiðiheimildum, og verði t.d. að vega og meta hvort og þá hvaða skilyrði fylgja kaupunum, hver má kaupa, hversu mikið, hvort kvótanum fylgi löndunarskylda og hvort greiða eigi við hamarshögg eða við sölu aflans. „Niðurstaða bókarinnar er að hið opinbera geti átt von á að fá hvað mest fyrir fiskinn ef sem minnstar skorður og takmarkanir eru settar, og kaupendum leyft að greiða fyrir fiskinn jafnóðum og aflinn veiðist frekar en að þurfa að fyrirframgreiða hann.“

Sjálfur er Hjörtur ekki hrifinn af uppboðsleiðinni og segir hann að mikið af umræðunni um stjórnun fiskveiða á Íslandi beri þess merki að margir sem tjá sig hafi takmarkaða þekkingu á málaflokknum. „Bókin hans Óla Samró á tvímælalaust erindi við þá sem vilja geta tekið þátt í umræðunni með skynsömum hætti,“ segir Hjörtur og minnir á að komið hafi verið í mikið óefni þegar kvótakerfið var sett á í núverandi mynd. „Að mínu mati vantaði þó í kerfið, þegar það var þróað áfram, að gert væri ráð fyrir einhvers konar aðgerðum til að bregðast við flutningi veiðiheimilda frá sumum byggðum, með tilheyrandi áhrifum á atvinnulífið á hverjum stað.“

Fjárfesting skýrir verðmætaaukninguna

Segir Hjörtur að það virðist líka hafa komið stjórnmálamönnum á óvart hvað kvótinn reyndist verða verðmætur. „Ef þeir hefðu vitað betur hefðu eflaust verið gerðar ráðstafanir til að láta meira af söluhagnaði kvótans skila sér aftur inn til ríkisins, til að nýta í þágu þeirra svæða sem misstu frá sér kvóta.“ Varar Hjörtur við því að gera umfangsmiklar breytingar á núverandi kerfi. „Það virðist æ algengara að stjórnmálamenn reyni að afla sér vinsælda með loforðum um að taka enn meira frá sjávarútveginum og nota til ýmissa verkefna. En hafa verður í huga að sjávarútvegurinn gerir nú þegar mikið fyrir þjóðarhag með beinum og óbeinum störfum, og tíðkast nánast hvergi annars staðar í heiminum að útgerðir greiði auðlindagjald. Þvert á móti skekkir það samkeppnisstöðu íslenskra sjávar- útvegsfyrirtækja að keppinautar þeirra í öðrum löndum njóta styrkja frá hinu opinbera.“ Minnir Hjörtur líka á að þó að skrifa megi árangur íslensks sjávar- útvegs á þann grunn sem lagður var með núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þá hafi hagnaður greinarinnar ekki verið sjálfgefinn. „Sú verð- mætaaukning sem hefur átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi á þessari öld byggist nær eingöngu á þeirri fjárfestingu sem menn hafa lagst í til að bæta vinnslu og veiðar, og fá þannig meira úr þeim skammti sem þeim var úthlutað. Er rétt að spyrja, í því ljósi, hvort það sé eðlilegt að skattleggja ávinning greinarinnar enn frekar, eða að þjóðin eigi tilkall til stærri hlutdeildar í tekjum sjávar- útvegsins en hún fær nú þegar.“

Deila: